Glæsileg byrjun dugði skammt í Svíþjóð

Þórey Rósa Stefánsdóttir í eldlínunni í dag.
Þórey Rósa Stefánsdóttir í eldlínunni í dag. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola tap, 37:23, gegn Svíþjóð í undankeppni EM í dag, en leikið var í Karlskrona í Svíþjóð.

Ísland leikur við Lúxemborg á útivelli 3. apríl næstkomandi í næsta leik sínum í riðlinum. Eftir það tekur við heimaleikur gegn Færeyjum. Með sigrum í þeim leikjum er Ísland komið á EM. 

Tvö efstu lið riðilsins eru örugg á EM á meðan fjögur lið af átta sem enda í þriðja sæti í sínum riðli fara einnig á lokamótið. 

Sænska liðið er eitt það besta í Evrópu en íslenska liðið byrjaði með látum og komst í 8:4 snemma leiks.

Þá tók sænska liðið við sér, skoraði hvert markið á fætur öðru og þegar uppi var staðið var það Svíþjóð sem var með öruggt forskot í hálfleik, 18:11.

Svíar voru með undirtökin allan seinni hálfleikinn og bættu hægt og rólega í forskotið. Að lokum munaði fjórtán mörkum þegar uppi var staðið.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst í íslenska liðinu með sex mörk. Perla Ruth Albertsdóttir gerði fjögur og þær Þórey Rósa Stefánsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir þrjú hvor. 

Svíþjóð 37:23 Ísland opna loka
60. mín. Jennifer Johansson (Svíþjóð) skoraði mark Hraðaupphlaup.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert