Hansen bjargaði Aalborg í toppslag gegn Guðmundi

Mikkel Hansen tryggði Aalborg stig í kvöld.
Mikkel Hansen tryggði Aalborg stig í kvöld. AFP/Liselotte Sabroe

Mikkel Hansen var bjargvættur Danmerkurmeistara Aalborg í kvöld þegar þeir gerðu jafntefli við lærisveina Guðmundar Þ. Guðmundssonar í Fredericia í toppslag danska handboltans, 32:32, í Fredericia.

Hansen jafnaði metin úr vítakasti þremur sekúndum fyrir leikslok og sá til þess að Aalborg er áfram með fimm stiga forskot á Fredericia á toppi deildarinnar. 

Hansen skoraði fjögur mörk í leiknum en Aleks Vlah var markahæstur hjá Aalborg með átta mörk og Reinir Taboada skoraði sex mörk fyrir Fredericia. Einar Þorsteinn Ólafsson lék með Fredericia en skoraði ekki.

Allt stefnir í að liðin verði efst hvort í sínum úrslitariðli þegar átta liða úrslitin um danska meistaratitilinn hefjast. Þegar þrjár umferðir eru eftir af hefðbundinni deildakeppni er Aalborg með 40 stig, Fredericia 35 og Bjerringbro/Silkeborg 30 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert