Íslendingarnir atkvæðamiklir í Þýskalandi

Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk í kvöld.
Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk í kvöld. Ljósmynd/@SCMagdeburg

Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk fyrir Magdeburg þegar liðið tók á móti Erlangen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld.

Leiknum lauk með fimm marka sigri Magdeburgar, 27:22, en Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt mark en liðið situr í öðru sæti deildarinnar með 42 stig. 

Füchse Berlín, sem hafði betur á útivelli gegn Rhein-Neckar Löwen, er í efsta sætinu með 43 stig, en Magdeburg á leik til góða á Füchse Berlín.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Rhein-Neckar Löwen sem er með 20 stig í ellefta sætinu.

Þá var Oddur Gretarsson markahæstur hjá Balingen þegar liðið tapaði á útivelli fyrir Hannover-Burgdorf, 35:26, en hann skoraði sjö mörk í leiknum. Daníel Þór Ingason komst ekki á blað hjá Balingen sem er með 11 stig í neðsta sætinu, þremur stigum frá öruggu sæti.

Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari, er með 30 stig í sjötta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert