Eyjamaðurinn skoraði 17 mörk

Hákon Daði Styrmisson á æfingu með íslenska landsliðinu.
Hákon Daði Styrmisson á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hákon Daði Styrmisson átti hreint lygilegan leik fyrir Hagen þegar liðið lagði Lübeck-Schwartau örugglega að velli, 38:31, í þýsku B-deildinni í handknattleik karla í kvöld.

Hákon Daði gerði sér lítið fyrir og skoraði 17 mörk fyrir Hagen. Mörkin 17 skoraði hann úr 20 skottilraunum og var því með 85 prósent skotnýtingu.

Eyjamaðurinn er í góðu formi um þessar mundir enda skoraði hann tíu mörk í sigri á Dormagen í deildinni í síðustu viku.

Örn Vésteinsson komst ekki á blað í liði Lübeck-Schwartau.

Hagen er í fjórða sæti B-deildarinnar með 34 stig, sex stigum á eftir Bietigheim í öðru sæti, en tvö efstu liðin fara beint upp í 1. deild.

Lübeck-Schwartau er í níunda sæti með 25 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert