Refsuðu okkur grimmt

Einar Jónsson og Anton Gylfi Pálsson dómari.
Einar Jónsson og Anton Gylfi Pálsson dómari. mbl.is/Kristinn Magnússon

„ÍBV er bara betra lið, þetta var ennþá á lífi í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks sá maður alveg í hvað stefndi. Eyjamennirnir flottir, allt hrós á þá, þeir gerðu þetta vel, voru þolinmóðir og refsuðu okkur svo grimmt þegar það gafst tækifæri til,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Framara, eftir níu marka tap 34:25 í Vestmannaeyjum.

„Fyrri hálfleikurinn var flottur af okkar hálfu en síðan kom svona kafli í upphafi seinni hálfleiks sem var erfiður og þá var ekkert aftur snúið fyrir Eyjamenn,“ sagði Einar en hann er svekktur með hversu fljótt ÍBV kláraði leikinn í upphafi síðari hálfleiks.

„Við ætluðum að reyna að gera þetta að leik, það er alltaf erfitt að byrja seinni hálfleik illa, munurinn var þrjú mörk sem er allt í lagi í hálfleik en svo var þetta komið í 5-6 mörk á fyrstu 2-3 mínútunum og það bætti ekki úr skák þegar þeir tóku af okkur mark, þegar við gátum minnkað í fjögur.

Hann flautar ólöglega skiptingu akkúrat þegar boltinn er í loftinu á leiðinni í markið, eftirlitsmaðurinn gerir bara mistök og þetta er ekkert sem skipti máli með niðurstöðu leiksins,“ sagði Einar en það var í raun alveg týpískt að Ívar Logi Styrmisson hafi síðan klikkað á vítinu sem Framarar fengu í staðinn fyrir markið.

„Ég þakkaði eftirlitsmanninum kærlega fyrir það þegar hann klikkaði á vítinu, við vorum búnir að vera 100% fram að því, það var nánast gefið mál að hann myndi klikka.“

Framarar voru án margra lykilmanna í dag, hver er staðan á þeim fyrir úrslitakeppnina?

„Ég held að þetta séu sjö eða átta leikmenn, lykilmenn sem eru fyrir utan hóp. Ég reikna því miður ekki með nema Marel og Lalla (Lárus Helgi), þeir koma inn í næsta leik, aðrir eru held ég frá út tímabilið.“

Framarar hafa einungis unnið sér inn fjögur stig í síðustu átta leikjum, það hefur gengið bölvanlega. Erfitt er að koma inn í úrslitakeppni á þessu rönni.

„Við erum ekki búnir að fá úrslit úr síðustu leikjum en við höfum verið að spila á köflum mjög vel, þetta er nánast U-liðið okkar, margt gott. Akkúrat munurinn er sá að okkur er refsað fyrir mistökin sem eru því mjög dýrkeypt.

Það er engin örvænting hjá okkur, við höldum áfram að vinna í okkar málum, breiddin hjá okkur stækkar fyrir vikið og þetta eru duglegir og metnaðarfullir strákar. Til lengri tíma litið munum við græða á þessu.“

Er hægt að afskrifa Fram í úrslitakeppninni eða eiga þeir einhverja gíra inni?

„Við eigum eftir að fá Marel inn í þetta og Lalla, sem eykur klárlega breiddina hjá okkur. Kannski er ég að gleyma einhverjum en ég held ég sé að segja rétt frá. Það er alls ekki hægt að afskrifa okkur, við munum koma á fullum krafti inn í úrslitakeppnina.

Ég veit svo sem ekkert hverjum við mætum en það verður líklega Afturelding. Það eru alltaf hörkuleikir þegar Fram og Afturelding mætast og við hlökkum til þess einvígis,“ sagði Einar að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert