Þetta er okkar bolti

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV.
Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara ÍBV, var ánægður með sigur sinna manna gegn gamla liðinu sínu í Vestmannaeyjum í kvöld er liðið lagði Fram að velli 34:25. Með sigrinum komst ÍBV skrefi nær því að tryggja heimaleikjaréttinn í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins þar sem liðið mætir Haukum.

„Til að vera hreinskilinn þá erum við með töluvert sterkara lið, bæði á vellinum og á pappírnum og í raun sama hvernig á það er litið. Við áttum að vinna þennan leik og gerðum það sómasamlega.

Framararnir voru flottir í fyrri hálfleik, skynsamir en svo fjarar undan þessu hjá þeim. Við héldum okkar dampi en þeir eru ekki með sömu breidd og við, óreyndara lið, menn í meiðslum og allt svoleiðis. Ef við tökum þetta allt saman eru þetta mjög eðlileg úrslit,“ sagði Magnús.

Eyjamönnum tókst illa að losa sig við Framarana í fyrri hálfleik en gerðu það fagmannlega á upphafsmínútum síðari hálfleiksins.

„Ég var pínu svekktur með það hvernig við byrjuðum fyrri hálfleikinn varnarlega, síðan fórum við að rótera, þetta eru keppnismenn sem vilja vera inná. Þegar menn fengu sénsinn aftur voru þeir búnir að gíra sig aftur í gang, Ísak og Siddi voru flottir í hjarta varnarinnar í seinni hálfleik.“

Eyjamenn eru það lið sem hefur skorað flest mörk í deildinni og þeir voru það lið sem skoraði flest mörk í dag.

„Við viljum sækja hratt, vinna boltann í vörninni og keyra á andstæðinginn. Við spilum þannig sóknarleik að við förum mikið í árásir maður á mann, sem krefst ekki mikils undirbúnings og því verða sóknirnar okkar fyrir vikið ekki langar en þó áhrifaríkar. Þetta er okkar bolti.“

Í stöðunni 22:17 skoraði Rúnar Kárason mark fyrir Framara en rétt áður en boltinn fór yfir línuna flautaði eftirlitsmaðurinn þar sem hann taldi Eyjamenn hafa tekið ranga skiptingu, sem var svo ekki rétt.

Kom aldrei til greina að leyfa Frömurum að skora úr vítinu sem þeir fengu vegna mistaka eftirlitsmannsins?

„Það er reyndar frábær punktur þegar þú segir það, ég sagði við dómarana þegar þetta gerðist að dæma bara mark, þetta voru mistök þar sem hann hélt að við hefðum verið að setja ólöglegan leikmann inn á, en tíminn á klukkunni var liðinn þannig að hann mátti fara inn á.

Þetta voru mistök sem dómarar og eftirlitsmenn geta gert eins og við og leikmenn, þeir gerðu ein þarna. Þetta var víti eftir bókinni, en ef þeir hefðu dæmt markið gilt, þá hefði það bara verið þannig og áfram gakk.“

Eyjamenn þurfa eitt stig til viðbótar til að tryggja sér heimaleikjaréttinn í 8-liða úrslitunum gegn Haukum.

Fer allt kapp í það núna fyrir síðasta leikinn?

„Markmiðið okkar er hreint og skýrt eins og fyrir alla leikina í vetur, við förum í þá alla til að vinna þá, alveg sama hvað stendur á töflunni.

Þetta skiptir okkur kannski meira máli núna eins og staðan er, við erum að fara all-in í restina af þessu tímabili. Við erum að fá alla okkar menn inn heila og það er bara bensínið í botn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka