„Fólk ætti að kveikja á þessum leik“

Elmar Erlingsson og Þráinn Orri Jónsson eigast við í leik …
Elmar Erlingsson og Þráinn Orri Jónsson eigast við í leik ÍBV og Hauka í undanúrslitum bikarkeppninnar í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Einvígið leggst mjög vel í mig. Við spilum alltaf á móti þeim í úrslitakeppninni og síðustu ár hefur allavega gengið vel gegn þeim,“ sagði Elmar Erlingsson, leikmaður ÍBV, fyrir einvígi liðsins gegn Haukum í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik.

Fyrsti leikurinn í einvíginu fer fram í Vestmannaeyjum klukkan 19.40 í kvöld og þarf að vinna tvo leiki til þess að komast í undanúrslit.

„Í úrslitaeinvíginu á síðasta ári kom smá bakslag þegar við vorum komnir 2:0 yfir. Þeir eru með hörkulið og við líka. Ég held að þetta verði 50/50, allir leikir. Þetta verður mjög spennandi,“ sagði Elmar í samtali við mbl.is.

Besta varnarliðið í deildinni

Eyjamaðurinn sagði ýmislegt sem ríkjandi Íslandsmeistarar ÍBV þyrftu að varast í leik Hauka.

„Já, ef þú horfir á þá er þetta besta varnarliðið í deildinni með Adam [Hauk Baumruk] og Þráin [Orra Jónsson] í þristunum og Aron [Rafn Eðvarðsson] í markinu.

Svo er náttúrlega Guðmundur Bragi [Ástþórsson], það lítur allt mjög einfalt út fyrir þann leikmann, sem hjálpar þeim mjög mikið.“

Bæði lið misst sína mikilvægustu leikmenn

Spurður hvort mikinn mun væri að finna á liðunum tveimur frá úrslitaeinvígi þeirra á síðasta ári sagði Elmar:

„Þeir missa sinn mikilvægasta leikmann í úrslitunum í fyrra, sem er Andri [Már Rúnarsson], og við missum Rúnar [Kárason]. Robbi [Róbert Sigurðarson] er líka farinn frá okkur.

Það er held ég það eina, annars er þetta það sama. En það skiptir engu, við erum klárir í þetta og þeir 100 prósent líka. Þetta verður bara geggjað.“

Ólíklegt að verði eitthvað um burst

Hann sér fram á mjög jafna leiki.

„Mér finnst það mjög ólíklegt að þetta verði einhverjir burst leikir. Ég sé alveg fyrir mér að þetta verði þrír leikir, kannski einhverjir þeirra framlengdir.

Ég er mjög spenntur fyrir þessu og fólk ætti að kveikja á þessum leik myndi ég segja,“ sagði Elmar að lokum í samtali við mbl.is.

Elmar samdi í gær við þýska félagið Nordhorn-Lingen og birtist viðtal við hann um skiptin í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert