Marta dró úr okkur tennurnar

Sólveig Lára Kjærnested á hliðarlínunni í kvöld.
Sólveig Lára Kjærnested á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sólveig Lára Kjærnested, þjálfari ÍR, stýrði sínu liði í fyrsta sinn í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta er liðið sótti heim ÍBV.

Liðin enduðu í 4. og 5. sæti deildarinnar og leika því um að komast í undanúrslitin og mæta þar Valskonum sem eru deildarmeistarar. ÍBV er í lykilstöðu eftir tíu marka sigur í kvöld 30:20 en ÍR-ingar ætla að selja sig dýrt í leik 2 á mánudaginn.

ÍBV og ÍR

Hennar stelpur náðu ekki að nýta sér slæma byrjun markvarðar ÍBV en Marta Wawrzynkowska hefur verið einn af bestu markvörðum deildarinnar síðustu ár en var einungis með 25% vörslu í fyrri hálfleik.

Matthildur Lilja Jónsdóttir sækir að marki ÍBV og Katrín Tinna …
Matthildur Lilja Jónsdóttir sækir að marki ÍBV og Katrín Tinna Jensdóttir fylgist með. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við lentum strax fimm mörkum undir og svo hélst það út hálfleikinn, það var fullt af flottum færslum og flottum sóknum í þessum leik, sem er kannski skrýtið að segja eftir 10 marka tap. En það er margt jákvætt sem við getum tekið út úr leiknum, við spilum þó arfa slaka vörn til að byrja með og þær eru eiginlega leika sér að okkur fyrsta korterið. Við náðum að laga það og þetta þéttist aðeins, það er margt jákvætt í þessu en ansi margt sem við þurfum að laga.“

Hornamenn ÍR fengu mörg góð færi en af 15 hornaskotum leiksins rötuðu einungis þrjú í markið, ÍR-ingar klikkuðu á 9 af sínum 12 skotum úr hornunum og vippuðu boltanum talsvert yfir markið.

Þá fer hausinn niður í bringu

„Marta dregur úr okkur tennurnar, hún er frábær markvörður og um leið og hún nær að klukka einn, tvo eða þrjá, þá fer hausinn niður í bringu og fleiri slæm slútt fylgja í kjölfarið. Það er eitt af þeim atriðum sem við þurfum að skoða.“

Karen Tinna Demian náði ekki að spila sinn besta leik en hún skoraði tvö mörk úr sínum sex skotum og liðsfélagar hennar náðu einungis að nýta 2 af þeim 8 færum sem hún bjó til fyrir þær. Þurfa ÍR-ingar að fá hana betur inn í næsta leik?

„Við þurfum kannski ekkert sérstaklega að koma henni inn í leikinn, við þurfum bara að þétta vörnina okkar, ná betri slúttum á markið og þá fylgir hún með. Hún má alveg eiga slakan dag, hún hefur ekki átt marga slaka daga í vetur og vonandi mætir hún fílefld á mánudaginn.“

Liðin enduðu hlið við hlið í töflunni en töluverður munur var á þeim í dag, hvað geta ÍR-ingar gert til að brúa bilið?

„Við þurfum að byrja á því að þétta vörnina okkar, það er klárlega lykillinn að því að gera eitthvað á mánudaginn. Síðan er þetta fyrsti leikur í úrslitakeppni hjá mínu liði, það er fullt af fólki í stúkunni, það er líka erfitt að koma hingað og hvað þá þegar maður hefur litla reynslu í því.

Vonandi erum við búnar að hlaupa úr okkur skrekkinn og við mætum meira sjálfum okkur líkar á mánudaginn,“ sagði Sólveig en ÍR-ingar eru nýliðar í deildinni eftir að hafa sent Selfoss niður um deild í umspilinu síðasta vor. Er þetta aðeins á undan áætlun hjá liðinu?

Erum búnar að spila drulluvel

„Ég held að það sé ekki hægt að segja annað en það að þetta hafi gengið vonum framar, okkar stóra markmið var að halda okkur í deildinni, ná þessu 6. sæti en draumurinn var að ná þessum 5. sæti sem við náum.

Við erum búnar að spila drulluvel og margar tekið miklum framförum, við eigum alveg skilið að vera þar sem við erum. Við sjáum að það er smá í liðin þarna fyrir ofan okkur, við erum spennt að halda áfram að vinna í því og bæta okkur leik frá leik.“

Stemningin í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum var góð, býst Sólveig við svipaðri stemningu í leiknum á mánudaginn?

„Já, ég reikna með því, við erum vanar að fá flottan stuðning, ég vona að fólk mæti í húsið á mánudaginn, mér finnst þessar stelpur eiga það svo sannarlega skilið að fólk mæti og fái að sjá flottan handbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert