Lykilsigur hjá Guðmundi og Einari

Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar lið Fredericia.
Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar lið Fredericia. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þ. Guðmundsson og hans menn í Fredericia unnu í gærkvöld gríðarlega þýðingarmikinn útisigur á GOG í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn í handknattleik, 29:27.

Eftir ósigra í tveimur fyrstu leikjunum má segja að Fredericia hafi verið með bakið uppi við vegg en sigurinn gjörbreytir stöðu liðsins.

Leikið er í tveimur fjögurra liða riðlum og liðin tóku með sér ýmist ekkert, eitt eða tvö stig eftir því hvar þau enduðu í deildinni í vetur. Fredericia var óvænt í öðru sæti og fór því með tvö stig áfram eins og stórlið Aalborg sem vann deildina.

Eftir sigurinn á GOG eru Skjern og Fredericia með 4 stig hvort, GOG 3 og Ringsted 2 en Skjern og Ringsted eiga eftir að mætast í þriðju umferð af sex í riðlinum.

Einar Þorsteinn Ólafsson náði ekki að skora að þessu sinni fyrir Fredericia sem á eftir seinni umferðina gegn liðunum þremur. Tvö efstu liðin fara í undanúrslit en Aalborg fer nær örugglega áfram úr hinum riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert