Höfum átt í vandræðum með Fram

Díana Guðjónsdóttir fer yfir málin með leikmönnum sínum.
Díana Guðjónsdóttir fer yfir málin með leikmönnum sínum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka í handknattleik kvenna, var mjög glöð með að klára einvígið gegn Stjörnunni í tveimur leikjum, sem þýðir meiri tíma til undirbúnings fyrir undanúrslitaeinvígið gegn Fram. 

Var eitthvað sem kom þér á óvart í leik Stjörnunnar í kvöld?

„Við bjuggumst við erfiðari leik í kvöld og vissum að þær voru ekki á sínum degi í síðasta leik þannig að við reiknuðum með erfiðari leik í kvöld þar sem þær voru með bakið upp við vegg og á sínum heimavelli,“ sagði Díana í samtali við mbl.is eftir leik.

Það hlýtur að vera dýrmætt fyrir Hauka að komast í undanúrslitaeinvígið í tveimur leikjum og fá auka hvíld gegn úthvíldu liði Fram?

„Já, það er mjög mikilvægt og þá getum við hreinsað hugann og endurskipulagt okkur því við erum búnar að vera í vandræðum með Fram í vetur,“ sagði hún.

Spurð nánar út í leikinn gegn Stjörnunni sagði Díana þetta:

„Við erum búnar að vera í hörkuleikjum gegn Stjörnunni í vetur og þær eru með flottan hóp. Munurinn á þessum liðum er kannski breiddin og við vissum að þetta myndi snúast um vörn og markvörslu en við vorum frekar slakar sóknarlega, sérstaklega í fyrri hálfleik og það þarf að laga fyrir næstu leiki.“

Hvernig sérðu fyrir þér leikina gegn Fram?

„Úrslitakeppni er alltaf skemmtileg, við erum búnar að bíða eftir þessu í allan vetur og við erum komnar áfram en ekki að fara í sumarfrí og það er frábært. Við þurfum að spila mjög vel varnarlega gegn Fram en við höfum verið í vandræðum með það.

Síðan þurfum við að vanda okkur meira með boltann sóknarlega og núna þarf ég að leggjast yfir myndbönd, klippa og undirbúa okkur fyrir undanúrslitin,“ sagði Díana að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert