ÍBV auðveldlega í undanúrslit

Elísa Elíasdóttir í fyrri leik liðanna í Vestmannaeyjum á dögunum.
Elísa Elíasdóttir í fyrri leik liðanna í Vestmannaeyjum á dögunum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í handknattleik með því að hafa betur gegn ÍR, 22:18, í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð í kvöld.

ÍBV vann einvígið 2:0 og mætir ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeisturum Vals í undanúrslitum.

Gestirnir frá Vestmannaeyjum byrjuðu af feikna krafti og komust í 7:1.

Með því var grunnurinn að þægilegum sigri lagður þar sem munurinn var níu mörk í hálfleik, 14:5.

Slökuðu á í lokin

Um miðjan síðari hálfleik náði ÍBV mest 11 marka forystu í stöðunni 20:9 og 21:10. Eftir það tóku Eyjakonur hlutunum með mikilli ró, gáfu afar mikið eftir en án þess þó að eiga hættu á því að missa sigurinn úr höndum sér.

Niðurstaðan að lokum fjögurra marka sigur.

Þóra Björg Stefánsdóttir, sem einnig er öflug knattspyrnukona, var markahæst í liði ÍBV með fimm mörk. Skammt undan var Birna Berg Haraldsdóttir með fjögur mörk.

Marta Wawrzykowska varði níu skot í marki Eyjakvenna og var með 39 prósent markvörslu.

Sylvía Sigríður Jónsdóttir og Hanna Karen Ólafsdóttir voru markahæstar með þrjú mörk hvor hjá ÍR.

Hildur Öder Einarsdóttir varði 15 skot í marki ÍR-inga og var með 40,5 prósent markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert