FH með yfirhöndina í einvíginu

FH-ingurinn Jóhannes Berg Andrason í háloftunum í kvöld.
FH-ingurinn Jóhannes Berg Andrason í háloftunum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

FH og ÍBV áttust við í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Íslandsmóti karla í handbolta í dag og lauk leiknum með sigri FH 36:31 og eru Hafnfirðingar því komnir yfir í einvíginu. Þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið gegn annað hvort Val eða Aftureldingu.

Aron Pálmarsson skoraði fyrsta mark leiksins en jöfnunarmark frá Elmari Erlingssyni fylgdi strax í kjölfarið. Þannig þróaðist leikurinn fyrstu mínúturnar þegar liðin skiptust á að jafna og komast yfir. FH komst síðan yfir í stöðunni 6:5 og náði tveggja marka forskoti í stöðunni 7:5 eftir rúmlega 10 mínútna leik. Þá má segja að ákveðin kaflaskil hafi átt sér stað í leiknum því hafnarfjarðarliðið lék í framhaldinu á alls oddi og skoraði mörk í öllum regnbogans litum. Eftir tæplega 19 mínútna leik var staðan 14:9, 5 marka munur og eyjamenn neyddust til að taka leikhlé enda virtist ekkert ganga upp í leik þeirra þá stundina.

Eftir leikhlé breyttist lítið og FH náði að auka muninn í 7 mörk í stöðunni 17:10 en þá loksins bitu eyjamenn aðeins frá sér. Pavel varði tvö skot í röð, sín fyrstu í leiknum og Daniel Vieira skoraði mikilvæg mörk fyrir eyjamenn sem tókst að skora 3 mörk í röð og minnka muninn í 4 mörk, 17:13 fyrir FH sem tóku þá leikhlé.

FH tókst að auka muninn aftur fyrir leikhlé og skoraði Jóhannes Berg Andrason marka á lokasekúndubroti leiksins og kom FH í 20:15. Þess ber að geta að dómararnir þurftu að fara í skjáinn til að meta hvort markið væri gilt, svo tæpt var að tíminn væri útrunninn.

Aron Pálmarsson skoraði 5 mörk fyrir FH í fyrri hálfleik en Daníel Vieira og Kári Kristján Kristjánsson voru báðir með 4 mörk fyrir ÍBV. Markvarslan var mjög slök í fyrri hálfleik hjá báðum liðum en Daníel Freyr Andrésson varði 4 skot fyrir FH og Pavel Miskevich 2 skot fyrir ÍBV.

Staðan í hálfleik 20:15 fyrir FH.

FH skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks og hélt 4-5 marka forskoti allt fram á 40 mínútu leiksins en þá kom áhlaup frá ÍBV sem minnkaði muninn niður í 2 mörk í stöðunum 24:22 og 25:23. Eftir það var eins og eyjamenn þreyttust enda gríðarlega orkufrekt að elta í háspennuleikjum eins og var spilaður í dag.

FH tókst að auka muninn aftur í 5 mörk í stöðunni 30:25 og þeirri forystu héldu hafnfirðingar meira og minna út leikinn. FH vann að lokum 5 marka sigur 36:31.

Markahæstur í liði FH var Aron Pálmarsson með 8 mörk en í liði ÍBV var Elmar Erlingsson með 11 mörk og var besti maður vallarins.

Daníel Freyr Andrésson varði 7 skot og Axel Hreinn Hilmisson varði eitt víti fyrir FH. Pavel Miskevich varði 5 skot fyrir ÍBV og Petar Jokanovic 1 skot.

Liðin mætast aftur í Vestmannaeyjum á fimmtudaginn.

FH 36:31 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið FH 1:0 yfir í einvíginu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert