Þreyttur á þessu helvítis fokking silfri

Gunnar ræðir við mbl.is í kvöld.
Gunnar ræðir við mbl.is í kvöld. mbl.is/Óttar

„Það var smá skjálfti í byrjun,“ sagði Gunnar Malmquist Þórsson leikmaður Aftureldingar í samtali við mbl.is eftir að liðið vann sigur á FH, 32:29, á útivelli í fyrsta leik úrslitaeinvígis liðanna í Íslandsmótinu í handbolta.

FH náði sex marka forskoti í fyrri hálfleik en Aftureldingu tókst að jafna og var yfir stærstan hluta seinni hálfleiks.

„Við náum svo að koma inn góðu flæði í vörn og sókn. Við vorum seinir til baka til að byrja með en vöknum síðan. Um leið og við vöknum erum við mættir. Þegar við erum mættir erum við helvíti erfiðir, eins og við sýndum síðustu 45 mínúturnar.“

Afturelding var yfir nánast allan seinni hálfleik en FH-ingarnir aldrei langt undan. „Mér líður alltaf vel! Mér líður aldrei illa. Stundum snýst þetta um að ljúga aðeins að sjálfum sér og segja að manni líði vel. Þetta snýst um hugarleikfimi og að vera jákvæður.

Þetta hús er geðveikt. Það er geðveikt að spila í svona andrúmslofti og ég get ekki fokking beðið eftir að spila næsta leik í Mosó. Við fyllum húsið,“ sagði Gunnar með eldmóðinn á sínum stað.

Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari, eitthvað sem Gunnar hefur ekki upplifað áður. „Það er áfram fulla ferð. Þetta er bara einn leikur og það er ekkert komið. En ég er orðinn þreyttur á þessu helvítis fokking silfri. Ég er búinn að fá það tvisvar og er orðinn hungraður í fokking gullið núna,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert