FH jafnaði metin eftir magnaðan leik

Aron Pálmarsson fór mikinn fyrir FH-inga.
Aron Pálmarsson fór mikinn fyrir FH-inga. mbl.is/Eyþór

FH jafnaði í kvöld úrslitaeinvígi sitt við Aftureldingu á Íslandsmóti karla í handbolta með útisigri í Mosfellsbæ, 28:27. Staðan í einvíginu er nú 1:1, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari. Þriðji leikurinn er í Kaplakrika á sunnudag.

Mosfellingar byrjuðu ögn betur og skoruðu tvö fyrstu mörkin. FH-ingar voru fljótir að svara og með góðum kafla komust þeir yfir og náðu mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, 11:8.

Aron Pálmarsson sneri aftur eftir meiðsli og hann skiptist á að skora mörk og leggja þau upp sjálfur. Að lokum var FH með tveggja marka forskot í hálfleik.

Þorsteinn Leó Gunnarsson með boltann í höndunum í kvöld.
Þorsteinn Leó Gunnarsson með boltann í höndunum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Mosfellingar voru snöggir að jafna og var staðan 17:17 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og stefndi í æsispennandi lokakafla. Þegar slétt kortér var eftir jafnaði Þorsteinn Leó Gunnarsson fyrir Aftureldingu, 19:19.

Eftir það tók við fínn kafli hjá FH og Aron Pálmarsson kom gestunum í 22:20 þegar rúmar ellefu mínútur voru eftir. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur og munaði einu marki þegar sjö mínútur voru eftir, 24:23. Þorsteinn Leó jafnaði svo í 25:25 þegar tæpar fimm mínútur voru eftir.

FH-ingar svöruðu vel og komust aftur yfir, 26:25. Aron Pálmarsson skoraði svo tvö mörk í röð, kom FH í 28:25 og var staðan þá orðin ansi vænleg fyrir gestina. Mosfellingar skoruðu tvö síðustu mörkin en FH-ingar héldu út og jöfnuðu einvígið í 1:1.

Endurkoma Arons Pálmarssonar skipti miklu máli á lokakaflanum og vonandi fyrir einvígið að hann sé við góða heilsu fyrir næstu leiki. 

Afturelding 27:28 FH opna loka
90. mín. Leik lokið FH-ingar jafna einvígið eftir magnaðan leik!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert