Einar og Guðmundur í úrslitaleikina

Guðmundur Þ. Guðmundsson er kominn í úrslit með lið Fredericia.
Guðmundur Þ. Guðmundsson er kominn í úrslit með lið Fredericia. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari og varnarmaðurinn öflugi Einar Þorsteinn Ólafsson eru komnir í úrslitaleikina um danska meistaratitilinn í handknattleik eftir stórsigur Fredericia á Ribe-Esbjerg, 34:25, í lokaleik undanúrslitanna í kvöld.

Liðin voru búin að gera tvívegis jafntefli en í Danmörku kemst það lið í úrslit sem fyrr nær í þrjú stig í einvíginu. Að þessu sinni var Fredericia mun sterkari aðilinn á sínum heimavelli og var yfir í hálfleik, 16:12.

Einar skoraði eitt mark fyrir Fredericia í leiknum. Elvar Ásgeirsson náði ekki að skora fyrir Ribe-Esbjerg en átti þrjár stoðsendingar og Ágúst Elí Björgvinsson varði fimm skot í marki liðsins og var með 26 prósent markvörslu.

Aalborg verður á heimavelli í fyrsta leiknum gegn Fredericia á sunnudaginn en leikur númer tvö fer fram í Fredericia á miðvikudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert