43 ára Alexander: Hélt ég myndi endast í 1-2 mánuði

Alexander á æfingu í Grikklandi í dag.
Alexander á æfingu í Grikklandi í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

„Það hefur komið mér mikið á óvart, en maður veit aldrei hvað gerist í þessu,“ sagði Alexander Petersson leikmaður Vals í samtali við mbl.is aðspurður hvort hann hefði einhvern tímann búist við því að spila til úrslita í Evrópukeppni með íslensku félagsliði.

Alexander samdi við Val fyrir tímabilið, þrátt fyrir að hann hafi þá verið hættur í heilt ár eftir langan og farsælan atvinnumannaferil í fremstu röð. Hann hefur átt sinn þátt í að liðið er komið í úrslit Evrópubikarsins.

„Það var mjög spennandi að byrja aftur og sjá hvernig skrokkurinn myndi ráða við álagið. Ég er mjög ánægður með að hafa sloppið alveg við meiðsli. Ég hélt ég myndi aldrei ná meira en 1-2 mánuðum þegar ég byrjaði fyrst aftur,“ sagði hann.

Alexander viðurkenndi að hann hafi ekki verið spenntur fyrir því að spila í hraðri úrvalsdeild á Íslandi á fimmtugsaldri.

„Þetta kom óvænt upp. Ég hafði mikið fylgst með íslenska boltanum og mér fannst það allt of hratt og líkamlegt. Það er mikið hlaupið og barist. Mér fannst þetta ekki mjög spennandi, en það má aldrei segja aldrei,“ sagði hann.

Valur mætir Olympiacos í seinni leik liðanna í úrslitum í Aþenu klukkan 17 á morgun. Valur vann fyrri leikinn 30:26. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert