Veit ekkert hvað var í gangi

Benedikt Gunnar Óskarsson með verðlaunagripinn.
Benedikt Gunnar Óskarsson með verðlaunagripinn. mbl.is/Jóhann Ingi

„Ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunni,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson í samtali við mbl.is eftir að Valur varð Evrópubikarmeistari í handbolta karla með sigri á Olympiacos í vítakeppni í Aþenu í kvöld. 

Er Val­ur fyrsta ís­lenska liðið sem vinn­ur Evr­ópu­titil. Val­ur vann fyrri leik­inn á heima­velli 30:26. Loka­töl­urn­ar í kvöld urðu 31:27 og réðust úr­slit­in því í víta­keppni þar sem Val­ur vann 5:4.

„Ég var búinn að snúa mér í einhverja fimmtán hringi með Magga þarna á gólfinu. Ég veit ekkert hvað var í gangi, ólýsanlegt. 

Mér líður ekkert eðlilega vel, er ótrúlega glaður. Maður er búinn að vinna alla titlanna heimafyrir með Val. Að ná þessum er önnur tilfinning,“ sagði Benedikt um tilfinninguna eftir leik. 

Heyrði ekki neitt 

Hvernig fóruð þið að því að vinna?

„Við höldum okkar leikskipulagi og svo þegar þetta fór í vítaspyrnukeppni þá leið mér vel. Náðum að jafna sem var frábært enda undir allan leikinn. Ég er ótrúlega stoltur af þessum gæjum.“

Benedikt segir það hafa verið sturlað að spila í þessum aðstæðum.  

„Sturlað. Maður heyrði ekki neitt og svo var ég kominn með einhverja „lazera“ í augun þarna undir lokin. Þetta var alveg geðveikt.“

Benedikt bætti loks við í samtali við mbl.is að hann hefði ekki getað hugsað sér betri endi með Val, í bili, en hann færir sig yfir til norska félagsins Kolstad í sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert