Yrði geggjað að hætta með stórum titli

Alexander Petersson í fyrri leiknum við Olympiacos.
Alexander Petersson í fyrri leiknum við Olympiacos. mbl.is/Óttar Geirsson

Alexander Petersson getur orðið Evrópubikarmeistari í handbolta með Val er liðið mætir Olympiacos á útivelli í seinni leik liðanna í úrslitaeinvíginu klukkan 17. Valur, sem vann bikarkeppnina fyrr á árinu, vann fyrri leikinn á heimavelli, 30:26.

„Ég hafði aldrei unnið neitt á Íslandi fyrr en ég vann bikarkeppnina með Val. Það var mjög mikilvægt fyrir mig. Það var fyrsti titillinn á Íslandi og ef við vinnum leikinn á morgun (í dag) væri það mjög stórt. Ekki síður stórt en að vinna með stóru liði í Þýskalandi,“ sagði reynsluboltinn við mbl.is.

Mikið álag hefur verið á Valsliðinu undanfarnar vikur enda að spila heimafyrir og í Evrópukeppninni. Það tekur á 43 ára gamla skrokka, meira að segja hjá þeim sem eru í rosalegu formi eins og Alexander.

„Síðustu tveir mánuðir hafa verið aðeins erfiðir en maður venst þessu og Óskar hjálpar mér. Hann hvílir mig og gefur mér pásu þegar ég þarf á að halda. Vegna þessa næ ég að halda áfram.“

Alexander er óviss hvort leikurinn á morgun verði sá síðasti á ferlinum hjá sér. „Ég veit það ekki. Ég ákveð þetta bara í næstu viku. Það væri geggjað að hætta með stórum titli. Það væri kirsuberið á toppi kökunnar, eins og við segjum í Þýskalandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert