Það eina sem kemst að er að vinna

Aron Pálmarsson skoraði sex mörk í kvöld.
Aron Pálmarsson skoraði sex mörk í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Karlalið FH í handbolta er einum sigri frá því að landa Íslandsmeistaratitlinum eftir hádramatískan sigur á Aftureldingu í Kaplakrika í kvöld, 27:26, þar sem sigurmark leiksins kom á lokasekúndunni.

Aron Pálmarsson fyrirliði FH átti frábærar innkomur í leiknum og skoraði 5 mörk í leiknum. Við ræddum við glaðan Aron strax eftir leik:

Það hlýtur að vera ansi sætt að vinna með svona dramatískum hætti á heimavelli?

„Þetta var geðveikt, geðveikur leikur. Þetta var kannski ekki neinn glimrandi handbolti í gangi á stórum köflum. Það var mikil spenna og talsverð harka. Liðin voru mikið að reyna lesa hvort annað og svo er bara allt í járnum síðustu mínúturnar og þá var það bara "go big or go home". Þegar svona tímapunktur er í gangi þá er það eina sem kemst að hjá manni er að vinna og allt annað dettur út."

Spurður út í lokasókn FH þar sem Aron fékk boltann eftir miðju og gaf á Símon Michael Guðjónsson sem skoraði sigurmarkið sagði Aron:

„Sem betur fer náðum við að vinna á síðustu sekúndu leiksins. Ég vill bara hrósa Símoni, fullur af sjálfstrausti til að fara í þetta skot þrátt fyrir að hafa klikkað á tveimur vítum og mér leið mjög vel með að gefa á hann í lokin. Frábært hjá honun."

Þið eltið nánast allan leikinn, þó mest í fyrri hálfleik. Hvað vantaði upp á í ykkar leik?

„Sóknarleikurinn okkar var ekki góður í fyrri hálfleik. Það vantaði kannski herslumun í vörninni en 15 mörk á okkur í fyrri hálfleik frá Aftureldingu sem er með frábært sóknarlið er ekkert glatað. Sóknarlega vorum við samt bara lélegir. Munurinn á liðunum í hálfleik er samt kannski að markvörðurinn þeirra ver nánast allt í lok fyrri hálfleiks og síðan finnst mér við ekki alveg vera búnir að ná upp hraðaupphlaupunum okkar í þessari seríu. Við viljum hafa þau fleiri."

Þið mætið síðan brjálaðir í síðari hálfleik og haldið markinu hreinu fyrstu 8 mínúturnar. Hvað gerðist þá?

„Við byrjum síðari hálfleik frábærlega. Þeir skora fyrsta markið sitt eftir einhver glórulaus mistök hjá okkur. Náum að komast yfir og síðan er þetta bara allt í járnum alveg þangað fram á lokasekúnduna."

Afturelding leiðir allan leikinn fyrir utan fjögur skipti í leiknum en það var í stöðunum 1:0, 16:15, 26:25 og 27:26. Það hlýtur að teljast mikill styrkleiki að halda haus í svona leik og vinna ekki satt?

„Algjörlega, sérstaklega eftir fyrri hálfleik og koma út í síðari hálfleik og vinna upp muninn og komast yfir. Það er fáranlegur styrkleiki að ná að klára svona leik eftir að hafa verið að elta allan leikinn. Okkur líður auðvitað betur að vera leiðandi og láta hitt liðið elta okkur. En jú það er mikill styrkleiki að sýna að við getum unnið svona leiki."

Næsti leikur er á miðvikudag þar sem þið getið landað Íslandsmeistaratitlinum. Þið ætlið væntanlega að gera það?

„Við ætlum klárlega að klára þetta í Mosfellsbæ. Okkur fannst við nánast vera á heimavelli þarna síðast. Frábær stemmning í húsinu. Ég held við séum búnir að sína það að við eigum bestu stuðningsmennina, að mér finnst. Mér finnst þeir frábærir, standa allan tímann og láta heyrast í sér. Vonandi komast sem flestir þó ég geri mér grein fyrir að það komist væntanlega færri að en vilja í okkar hólf í Mosfellsbæ og við ætlum okkur sigur á miðvikudag," sagði Aron í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert