Þetta er mikið styrkleikamerki

Sigursteinn Arndal fylgist með sínum mönnum.
Sigursteinn Arndal fylgist með sínum mönnum. mbl.is/Eyþór Árnason

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var álíka mikið búinn á því og leikmennirnir sem spiluðu leik FH og Aftureldingar í kvöld. FH vann dramatískan sigur, 27:26, og leiðir 2:1 í einvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik.

Við ræddum við Sigurstein strax eftir leik:

Hvað hefur þú að segja um þennan leik sem var að klárast?

„Þetta var gríðarlega erfiður leikur og á mörgum sviðum tel ég okkur eiga mikið inni. Það skal samt sagt að við erum að mæta gríðarlega öflugum andstæðingi og ég er ofboðslega stoltur af liðinu að halda áfram og finna lausnir í stað þess að fara í einhverja uppgjöf. Það sem við tökum út úr þessum leik er að við héldum áfram að trúa."

Þið náið forskoti fjórum sinnum í leiknum í stuttan tíma. Annars eltið þið nánast allan leikinn en vinnið.

„Já algjörlega en eins og ég segi þá tel ég okkur eiga helling inni og við þurfum að fara vel yfir þennan leik en ég er fyrst og fremst ánægður með að hafa landað þessu í kvöld. Því þetta snýst um að vera yfir þegar leikurinn klárast."

Það hlýtur að teljast styrkleikamerki að vinna svona leik eftir að hafa verið að elta í nánast 60 mínútur ekki satt?

„Mikið styrkleikamerki og við höfum svo sem lent í þessu í vetur líka. Við höfum sótt mörg góð stig á síðustu sekúndunum. Það er eitthvað sem er gott að búa að þegar svona leiki koma."

Hvað þarf til að FH landi Íslandsmeistaratitlinum á miðvikudagskvöldið?

„Sama og fyrir alla hina leiki. Við þurfum að vera gagnrýnir á okkur sjálfa, ná fram góðri endurheimt og síðan þurfum við að bæta okkur á öllum sviðum fyrir næsta leik."

Aron Pálmarsson skorar sex mörk í kvöld en spilar lítið. Þú ert ansi sparsamur á hann í síðustu tveimur leikjum. Hvernig verður það í næsta leik?

„Við verðum bara að láta það koma í ljós. Við erum að vinna þetta með Aroni og hvað hann treystir sér í. Við þurfum að virða það að hann er búinn að vera frá í mánuð og lítið getað æft vegna meiðsla. Við þurfum að vera skynsamir með þetta eins og annað því við gerum okkur grein fyrir því að við erum í einvígi.

En að þessu sögðu þá er FH með fullt af öðrum frábærum leikmönnum sem hafa staðið sig frábærlega og ég sé ekki afhverju þeir ættu ekki að gera það áfram," sagði Sigursteinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert