Einn af þremur sætustu sigrunum

Aron Pálmarsson með Íslandsbikarinn á lofti.
Aron Pálmarsson með Íslandsbikarinn á lofti. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aron Pálmarsson fyrirliði FH hefur unnið alla helstu titla sem í boði eru bestu deildum heims í handbolta.

Hann hefur fimm sinnum orðið þýskur meistari, fjórum sinnum spænskur meistari, tvisvar ungverskur meistari, þrisvar unnið Meistaradeild Evrópu og tvisvar heimsbikar félagsliða.

Fyrir kvöldið hafði hann þó aldrei unnið Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki. Það tókst í kvöld þegar FH vann Aftureldingu í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn 31:27. FH vann því einvígið 3:1 og fögnuðu Aron og félagar vel og innilega í leiksklok. Mbl.is ræddi við Aron eftir leik:

Hvað hefur þú að segja sem Íslandsmeistari í fyrsta sinn á ferlinum?

„Ég er hrikalega hamingjusamur. Þetta er öðruvísi titill í ljósi þess að maður er nær fólkinu þannig að það eru meiri tilfinningar í þessu. Síðan er þetta á sama tíma léttir eins og er alltaf þegar manni tekst að vinna titla."

Nú ertu búinn að vinna alla helstu titla í heiminum með félagsliði. Í hvaða sæti fer þessi af þeim öllum?

Ég þarf að melta hann aðeins áður en ég staðset hann. Hann er mjög ofarlega eins og er miðað við þá tilfinningu sem ég er með núna. Þetta er öðruvísi tilfinning, nánara og maður er FH-ingur í húð og hár þannig að þessi titill kemst pottþétt í topp þrjá."

Þetta virtist vera auðveldasti leikurinn hjá ykkur af öllum þessum fjórum. Ertu sammála því?

Já það leit þannig út en það er samt ekkert auðvelt í þessu. Þeir gerðu okkur þetta auðvelt í seinni hálfleik með því að nota færin sín illa og það dró af þeim. Manni leið samt vel allan leikinn því við vorum með svör við öllu hjá þeim. Þetta var þolinmæðissigur. Mér fannst við samt alveg hafa getað spilað betur en ég tek þessu." sagði Aron hlæjandi.

Það var sagt í viðtali hér áðan að munurinn á þessum liðum hafi verið Aron Pálmarsson. Ertu sammála því?

„Það er rosalega erfitt að vera tala um sjálfan sig. Ég viðurkenni það samt að þetta eru sérstakar aðstæður. Undir venjulegum kringumstæðum væri ég ekki í þessari deild þannig að ég skil samt að það sé sagt. Það er samt ekki þar með sagt að það sé auðvelt að vera bestur. Maður þarf að leggja vinnu í það og sýna það síðan á vellinum. Ég er samt mest ánægður með að hafa náð að koma til baka eftir þetta bakslag á móti ÍBV."

FH vinnur tvo titla af þremur mögulegum. Næsta tímabil, eru það þá allir þrír?

Við vorum svekktir að hafa ekki komist í undanúrslit í bikarnum. Á næsta tímabili er markmiðið bara að gera betur. Alltaf að gera betur en síðast. FH er þannig klúbbur að markmiðið er að vera alltaf að berjast um alla titla þannig að á næsta tímabili ætlum við bara að taka alla þrjá," sagði Aron í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert