Hann er alltof góður fyrir þessa deild

Gunnar Magnússon ræðir við sína menn í leiknum í kvöld.
Gunnar Magnússon ræðir við sína menn í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var svekktur eftir að lið hans tapaði gegn FH í úrslitaviðureign liðanna í Íslandsmóti karla í handbolta í kvöld.

FH-ingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með sigrinum í  fjórða leik liðanna í Mosfellsbæ, 31:27. Gunnar ræddi við mbl.is strax eftir leik í kvöld:

Ef við gerum upp þessa fjóra leiki þá var þessi kannski sístur hjá þínum mönnum ekki satt?

„Við spilum mjög vel í fyrstu þremur leikjunum og algjörir klaufar að fara inn í þennan leik 2:1 undir í viðureigninni. Við vorum síst lakari aðilinn í fyrstu þremur leikjunum. Þetta fer kannski svolítið í leik númer 3 þar sem það hefði breytt algjörlega kemestríunni að mæta hingað 2:1 yfir.

Engu að síður spilum við þrjá leiki vel í þessari viðureign. Þessi leikur í kvöld var ekki góður. Þetta var ekki okkar dagur og margir sem náður sér ekki á strik. Það sem situr mest í mér er að hafa ekki komið 2:1 yfir í viðureigninni fyrir þennan leik."

Ef við skoðum þennan leik þá er jafnræði allan fyrri hálfleik og til að byrja með í síðari hálfleik. Síðan stinga þeir af.

„Við byrjum síðari hálfleikinn ekk vel, hvorki sóknarlega né varnarlega. Þeir ná frumkvæðinu og komast 5 mörkum yfir. Þá byrjum við að reyna allt sem okkur datt í hug en það bara gekk ekkert.

Við vorum í miklum vandræðum með Aron Pálmarsson bæði í kvöld og í öllu þessu einvígi. Aron er munurinn á þessum liðum. Hann er alltof góður fyrir þessa deild, ótrúlegur handboltamaður. Við bara réðum ekki við hann ef ég á að segja alveg eins og er." Það vantaði bara aðeins upp á hjá okkur í kvöld og við brotnuðum kannski bara í mótlætinu."

Dæmigert fyrir þennan leik

Markvarslan í kvöld var þannig að þið verjið 8 skot í leiknum. Það er ekki nogu gott eða hvað?

„Við erum búnir að vera með frábæra markvörslu í þessari úrslitakeppni. Þetta er eini leikurinn sem við erum með færri varða bolta en FH í þessari seríu. Er þetta ekki bara dæmigert fyrir þennan leik? Þetta var bara ekki okkar dagur. Það vantaði framlag frá svo mörgum sem áttu ekki sinn dag."

Nú er tímabilinu lokið. Verður þú áfram þjálfari Aftureldingar?

„Já ég verð áfram á næsta tímabili."

Eru einhverjar stórar breytingar hjá Aftureldingu?

„Já það verða töluverðar breytingar. Þorsteinn Leó er að fara út, Birkir er að fara út og Jakob er hjá Haukum. Við urðum bikarmeistarar í fyrra og öðru sæti í ár. Liðið varð Íslandsmeistari í 3 flokki.

Það eru margir ungir að koma upp ásamt því að við erum að fara styrkja okkur með fjórum nýjum leikmönnum og við ætlum bara að vera í toppbaráttu á næsta ári. Núna er bara eitt skref eftir og það er að vinna titla á næsta tímabili," sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert