Bubbi sér bara um þetta

Hafdís Renötudóttir, Hlynur Morthens og Elín Jóna Þorsteinsdóttir ræða málin.
Hafdís Renötudóttir, Hlynur Morthens og Elín Jóna Þorsteinsdóttir ræða málin. Ljósmynd/Jon Forberg

„Það var mjög gott að fá þessa þrjá leiki og mér líst rosalega vel á standið á liðinu. Það var frábært að það meiddist enginn í þessum leikjum.

Það eru allir ferskir og klárir í mótið,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, annar tveggja markvarða íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is.

Elín er mætt til Stafangurs í Noregi ásamt liðsfélögum sínum í landsliðinu, en fram undan er fyrsta stórmót Íslands í rúman áratug. Ísland lék við Pólland, Noreg og Angóla á alþjóðlega Posten Cup-mótinu í aðdraganda heimsmeistaramótsins og skiptu Elín og Hafdís Renötudóttir mínútum vel á milli sín.

„Ég horfi ekki á þetta sem baráttu. Ef Hafdís er inni á vellinum vona ég alltaf að hún standi sig sjúklega vel. Við erum í liðsíþrótt og við höldum með hvorri annarri og viljum að hinni gangi vel. Ég held það sé enginn aðalmarkvörður beint. Bubbi [Hlynur Morthens markvarðarþjálfari] sér bara um þetta,“ sagði Elín og hló.

Hún segist ekki finna fyrir meiri pressu á vellinum, þótt hin sterka Hafdís sé á bekknum. „Það er ekki beint meiri pressa. Ég er bara glöð að vita af rosalega góðum markverði á bekknum ef ég á ekki minn besta dag. Hún hugsar eflaust það sama,“ sagði Elín Jóna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert