Dagurinn búinn að vera frábær

Hildigunnur var glöð í bragði er hún ræddi við mbl.is …
Hildigunnur var glöð í bragði er hún ræddi við mbl.is eftir leik. Ljósmynd/Jon Forberg

„Dagurinn er búinn að vera frábær,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir, landsliðskona í handbolta, í samtali við mbl.is í dag. Hildigunnur náði þeim glæsilega áfanga að spila sinn 100. landsleik þegar hún lék með Íslandi gegn Frakklandi á HM í Stafangri í Noregi í dag.

Eins og við var að búast reyndist franska liðið of sterkt fyrir það íslenska, enda um eitt allra besta lið heims að ræða.

Hildigunnur Einarsdóttir er klár í slaginn gegn Angóla.
Hildigunnur Einarsdóttir er klár í slaginn gegn Angóla. Ljósmynd/Jon Forberg

„Við vissum að við værum að mæta einni sterkustu þjóð heims. Við komum því með aðeins öðruvísi hugarfar inn í þennan leik. Okkur langaði að eiga góðan leik til að reyna að taka eins mikið úr leiknum og við gátum.

Þetta var ekki eins og á móti Slóveníu þar sem við ætluðum okkur sigurinn. Núna vildum við eiga góðan leik og skoða hann eftir á. Við áttum fínan leik í dag, en byrjunin varð okkur að falli.

Það þýðir ekki að byrja svona, en það voru margir frábærir punktar og gaman að fá hundraðasta leikinn á móti einni bestu þjóð í heimi,“ bætti hún við, en Frakkland skoraði sjö fyrstu mörkin og íslenska liðið var í miklu basli.

Hildigunnur Einarsdóttir
Hildigunnur Einarsdóttir Ljósmynd/Jon Forberg

„Við fundum engar glufur í byrjun og þetta var mjög erfitt. Það var langt í næsta mann og við urðum svolítið ráðalausar því uppleggið okkar gekk ekki upp. Sem betur fer náðum við að laga það og urðum ákafari. Við erum svolítið lengi í gang þegar við lendum í mótlæti í byrjun,“ sagði hún.

Ísland vann seinni hálfleikinn með einu marki og átti flott tilþrif inn á milli og ágætan leik í 30 mínútur. „5-1 vörnin var góð hjá okkur og við náðum að stela boltanum og minnka mistökin. Það kom ró í leikinn og meiri trú í leikmenn. Við áttuðum okkur á að við getum þetta alveg. Stundum þurfum við bara að stilla hausinn rétt.“

Næst á dagskrá hjá liðinu er úrslitaleikur við Angóla um sæti í milliriðli, en tapliðið fer í forsetabikarinn.

„Við erum búnar að tala um þennan leik við Angóla frá því í síðustu viku og við verðum að mæta þar frá fyrstu mínútu. Angóla er sterkt lið sem hefur átt góða leiki á þessu móti. Ef við mætum ekki rétt til leiks refsa þær okkur. Þetta er undir okkur komið. Við þurfum að trúa því að við séum betri en þær,“ sagði Hildigunnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert