Frakkar unnu riðil Íslands

Frakkar unnu D-riðilinn.
Frakkar unnu D-riðilinn. AFP/Beate Oma Dahle

Frakkland tryggði sér í kvöld sigur í D-riðli HM 2023 í handknattleik kvenna, riðli Íslands, með því að leggja Slóveníu að velli, 31:27, í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins í Stafangri.

Frakkar voru með undirtökin stærstan hluta leiksins þó Slóvenar hafi aldrei verið langt undan.

Í síðari hálfleik náði Frakkland nokkrum sinnum fimm marka forystu og hleypti Slóvenum ekki nær sér en tveimur mörkum í hálfleiknum.

Sigurinn þýðir að Frakkland vann sér inn sex stig, fullt hús stiga, í D-riðlinum á meðan Slóvenía hafnaði í öðru sæti með fjögur stig.

Það þýðir að Frakkland tekur með sér fjögur stig, Slóvenía tvö stig og Angóla ekkert stig í milliriðil þar sem liðin munu mæta Noregi (fjögur stig), Austurríki (tvö stig) og Suður-Kóreu (0 stig) úr C-riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert