Gat ekki keypt mér mark

Andrea ræðir við mbl.is.
Andrea ræðir við mbl.is. Ljósmynd/Jon Forberg

Andrea Jacobsen, lykilmaður hjá íslenska landsliðinu í handbolta, er að njóta þess að spila á allra stærsta sviðinu, en hún er eins og flestir leikmenn Íslands að spila á sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu þessa dagana.

D-riðill Íslands á HM hefur farið fram í Stafangri í Noregi, þar sem liðið er vel stutt af stuðningsmönnum Íslands. Hún sagði frá tilfinningunni við að koma inn á völlinn fyrir fyrsta leik á stórmóti.

Fyrsta markið kom loksins gegn Frakklandi.
Fyrsta markið kom loksins gegn Frakklandi. Ljósmynd/Jon Forberg

„Þetta var frábær tilfinning og við erum nánast á heimavelli með stuðningsmennina og okkar fólk í stúkunni. Þetta hefði varla getað verið betra,“ sagði Andrea við mbl.is. í Stafangri.

Andrea átti erfitt uppdráttar í fyrsta leik gegn Slóveníu, en skoraði kærkomið fyrsta mark á stórmóti gegn Frakklandi í öðrum leik.

Fyrsta markið kom ekki gegn Slóveníu.
Fyrsta markið kom ekki gegn Slóveníu. Ljósmynd/Jon Forberg

„Ég er loksins búin að brjóta ísinn. Ég gat ekki keypt mér mark í fyrsta leiknum, en ég skoraði fyrsta markið á móti Frakklandi og ég finn að þetta er allt að koma,“ sagði hún glöð í bragði.

Hún sagði fyrsta leikinn ekki hafa haft mikil áhrif á sálarlífið, þrátt fyrir að hann hafi ekki farið eins og hana hafi dreymt um.

„Ekkert þannig. Við erum að mæta frábærum liðum sem eru með leikmenn í bestu deildum heims. Einn lélegur leikur gerir ekkert,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert