Þjálfar dætur sínar: Truflar hvorki mig né þær

Lilja skoraði tvö mörk gegn Frakklandi.
Lilja skoraði tvö mörk gegn Frakklandi. Ljósmynd/Jon Forberg

Ágúst Jóhannsson, aðstoðarþjálfari kvennalandsliðs Íslands í handbolta, er einnig þjálfari Íslandsmeistara Vals. Hjá Val þjálfar hann dætur sínar Ásdísi Þóru og Lilju og er sú síðarnefnda í HM-hópi Íslands, en Ásdís á enn eftir að leika sinn fyrsta A-landsleik.

Ágúst ræddi um þá stöðu að þjálfa dætur sínar og að aðeins önnur þeirra væri með sér í landsliðinu en hin ekki. Þurfti hann þá að eiga einhver óþægileg samtöl?

Ásdís Þóra Ágústsdóttir leikur með Val.
Ásdís Þóra Ágústsdóttir leikur með Val. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ekkert svoleiðis. Arnar aðalþjálfari velur hópinn 90% og ég styð við það. Það voru engin sérstök samtöl. Lilja hefur staðið sig vel og átt skilið að vera í hópnum. Ásdís hefur verið að stíga upp úr meiðslum og það hefur tekið sinn tíma, en hún hefur jafnt og þétt verið að koma sér upp úr því.

Ef hún heldur áfram að standa sig vel og bæta sig kemur hún til greina eins og allir leikmenn í hópinn. Fyrst og fremst þjálfa ég þær bara eins og alla aðra leikmenn. Ég hef gert þetta í mörg ár og þetta truflar hvorki mig né þær neitt,“ sagði Ágúst við mbl.is.

Ágúst ræðir við mbl.is.
Ágúst ræðir við mbl.is. Ljósmynd/Jon Forberg

Hann segir það ekki endilega koma á óvart að Lilja sé komin á stórmót, aðeins 19 ára gömul, enda lengi verið talin mikið efni.

„Það kemur ekki þannig lagað á óvart, en ég hugsaði ekki beint um þessa stöðu að ég yrði aðstoðarþjálfari landsliðsins og hún væri að koma inn í þetta. Ég hef verið með yngri landsliðin og Lilja hefur verið þar. Hún hefur lagt mikið á sig og hefur alltaf gert.

Þegar við bjuggum í Noregi og Danmörku stóð hún sig vel á móti þeim stelpum og spilaði upp fyrir sig þar. Það var hægt að reikna með að hún myndi ná langt. Það er gott fyrir hana að vera á þessum stað, en það gildir jafnt um hana og allar hinar, það þarf að vinna í sínum málum og taka næsta skref,“ sagði þjálfarinn og pabbinn Ágúst Jóhannsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert