Fyrsti sigur Íslands var risasigur

Hildigunnur Einarsdottir og Ivaana Holm í leiknum í Frederikshavn í …
Hildigunnur Einarsdottir og Ivaana Holm í leiknum í Frederikshavn í dag. AFP/Claus Björn Larsen

Ísland vann sinn fyrsta leik á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta í dag er liðið vann risasigur, 37:14, á Grænlandi í fyrsta leik liðanna í riðli eitt í Forsetabikarnum í Frederikshavn í Danmörku. Ísland á enn fína möguleika á að keppa um Forsetabikarinn, sem er keppni um sæti 25-32.

Næsti leikur Íslands er gegn Paragvæ á laugardaginn og svo leikur liðið við Kína í lokaleik sínum í riðlinum á mánudag. Síðan verður leikið um endanlegt sæti á miðvikudag.

Thea Imani Sturludóttir brýst í gegnum vörn Grænlendinga.
Thea Imani Sturludóttir brýst í gegnum vörn Grænlendinga. Ljósmynd/IHF

Grænlenska liðið byrjaði óvænt betur og komst í 3:0 í upphafi leiks. Íslenska liðið fór illa með góð færi í byrjun og hinum megin gekk illa að verjast sóknarlotum Grænlendinga.

Eftir að íslenska liðið hristi þann skrekk úr sér sást getumunurinn og eftir tíu mínútur var staðan orðin 4:4. Í stöðunni 6:6 skildu svo leiðir og íslenska liðið náði frumkvæðinu.

Þegar fyrri hálfleikur var allur var staðan orðin 19:8 og seinni hálfleikurinn formsatriði fyrir íslenska liðið.

Grænlenska liðinu var mjög vel fagnað þegar það mætti til …
Grænlenska liðinu var mjög vel fagnað þegar það mætti til leiks gegn Íslandi í Frederikshavn í dag. AFP/Claus Björn Larsen

Íslenska liðið skoraði hvert markið á fætur öðru úr hraðaupphlaupum og í autt mark grænlenska liðsins, sem spilaði mikið sjö gegn sex í sókninni og skildi markið eftir opið.

Hornakonurnar Þórey Rósa Stefánsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir voru markahæstar í íslenska liðinu í fyrri hálfleik með fjögur mörk hvor.

Íslenska liðið hélt yfirburðum sínum áfram í seinni hálfleik og jók muninn hratt og örugglega. Var staðan orðin 30:13 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir og aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði.

Katla María Magnúsdóttir gerði 30. mark Íslands, sem var hennar fyrsta mark á stórmóti í sínum fyrsta leik. Varð hún í leiðinni 14. markaskorari Íslands í leiknum.

Að lokum munaði 23 mörkum í leik þar sem yfirburðir Íslands voru gríðarlegir.

Markahæst í liði Íslands var Þórey Anna Ásgeirsdóttir með tíu mörk og öll komu þau í síðari hálfleik. Perla Ruth Albertsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoruðu að endingu fjögur mörk hvor, öll í fyrri hálfleik.

Hafdís Renötudóttir kom af miklum krafti í markið í síðari hálfleik og varði tíu skot. Áður hafði Elín Jóna Þorsteinsdóttir varið fjögur skot í fyrri hálfleik.

Í liði Grænlands var Ivaana Holm markahæst með fjögur mörk. Aviaaja Heilmann varði þá fjögur skot í markinu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 37:14 Grænland opna loka
60. mín. Josefine Gadgaard (Grænland) fékk 2 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert