Ég er algjörlega orðlaus

Grænland hefur stolið senunni á HM.
Grænland hefur stolið senunni á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

„Þetta var sérstakt fyrir mig,“ sagði grænlenska línukonan Ivana Meincke í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði 37:14 gegn Íslandi í fyrsta leik liðanna í Forsetabikarnum á HM í Frederikshavn í Danmörku í gær.

Ivana er leikmaður Stjörnunnar og lék þar áður með FH. Það var því sérstök tilfinning að spila á móti íslenska liðinu á heimsmeistaramótinu. „Ég hef spilað á móti þeim flestum á Íslandi og það var mjög sérstakt fyrir mig að spila á móti íslenska liðinu. Þetta var gaman.“

Ivana Meincke leikur með Stjörnunni og áður FH.
Ivana Meincke leikur með Stjörnunni og áður FH. Ljósmynd/Stjarnan

Grænlenska liðið hefur unnið hug og hjörtu handboltaunnenda á mótinu, þar sem leikgleðin í liðinu er einstök og hverju marki fagnað gríðarlega. Var höllin í Frederikshavn þétt setin af grænlenskum stuðningsmönnum í gær.

„Ég er algjörlega orðlaus. Þetta er HM og fyrir land eins og Grænland er þetta einstakt. Þetta er risastórt fyrir okkur og fyrsta HM hjá öllum leikmönnum liðsins. Við þurfum að spila fleiri leiki til að vaxa og þetta mót er að hjálpa okkur mikið,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert