Tekur mjög á andlega

Jóhanna Margrét ræðir við mbl.is.
Jóhanna Margrét ræðir við mbl.is. Ljósmynd/Jon Forberg

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, landsliðskona í handbolta, hefur undanfarið rúmt ár leikið með sænska liðinu Skara en hún kom til þess frá Önnered í sama landi. Jóhanna samdi við Önnered til þriggja ára en yfirgaf félagið eftir örfáa mánuði og skipti yfir til Skara.

Þar á undan hafði hún orðið markadrottning úrvalsdeildarinnar með uppeldisfélaginu HK.

„Það gekk alveg vel hjá Önnered, en þjálfarinn var með aðrar áherslur og það var breyting í stjórninni. Þeir vildu breyta til og þá hentaði ekki að hafa mig þarna.

Jóhanna Margrét og Lilja Ágústsdóttir á góðri stundu.
Jóhanna Margrét og Lilja Ágústsdóttir á góðri stundu. Ljósmynd/Jon Forberg

Þá fékk ég tækifærið til að fara til Skara, sem mér leist vel á. Þar hef ég fengið að spila og það hefur verið gott skref. Ég vildi vera áfram úti, þar líður mér vel,“ sagði Jóhanna við mbl.is.

Hjá Skara er hún liðsfélagi Aldísar Ástu Heimisdóttur og Katrínar Tinnu Jensdóttur og eru þær þrjár nánar. „Það er geggjað að hafa Íslendingana með sér og það er alltaf góður félagsskapur. Þær gera mikið fyrir mann,“ sagði Jóhanna.

Katrín er með Jóhönnu á lokamóti HM en Aldís Ásta, sem hefur leikið afar vel með Skara, var ekki í hópnum að þessu sinni. „Auðvitað væri maður alltaf sár. Hún hefur líka verið að standa sig vel úti og átti skilið að vera þarna líka,“ sagði Jóhanna um liðsfélaga sinn.

Jóhanna Margrét í sínum fyrsta leik á HM.
Jóhanna Margrét í sínum fyrsta leik á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

Atvinnumennskan er ekki alltaf dans á rósum, enda hafa margir virkilega góðir íslenskir leikmenn snúið aftur heim eftir skamman tíma erlendis. Jóhanna viðurkennir að harður heimur atvinnumennskunnar getur verið erfiður, en það sé þó allt þess virði.

„Þetta getur verið erfitt og þetta tekur mjög á andlega. Þegar maður fær minni spiltíma og það gengur erfiðlega er mjög erfitt að vera úti. Maður íhugar það oft að koma heim.

Þetta er harður heimur en að sama skapi eru góðir kostir við að vera úti. Maður er alltaf að fórna fyrir boltann. Það skilar sér og þá hættir maður að líta á þetta sem fórnir,“ sagði Jóhanna Margrét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert