Hrunamenn meistarar í 2. deild

Lið Hrunamanna fagnar sigrinum í 2. deildinni.
Lið Hrunamanna fagnar sigrinum í 2. deildinni. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Ungmennafélag Hrunamanna varð í gær meistari í 2. deild karla í körfuknattleik með því að sigra Laugdæli, 83:77, í úrslitaleik á Selfossi. Bæði liðin leika í 1. deildinni næsta vetur.

Hrunamenn voru yfir allan leikinn en staðan í hálfleik var 47:34 þeim í hag. Árni Þ. Hilmarsson var stigahæstur þeirra með 19 stig en hjá Laugdælum voru Þorkell Bjarnason og Snorri Þorvaldsson með 16 stig hvor.

Leikskýrslan.

Lið Hrunamanna og Laugdæla koma í staðinn fyrir Suðurnesjaliðin Reyni úr Sandgerði og Þrótt úr Vogum. Það þýðir að 40 prósent liða í 1. deildinni næsta vetur verða af Suðurlandi því þar eru einnig lið Hamars úr Hveragerði og Þórs frá Þorlákshöfn. Lið FSu frá Selfossi, sem lék í 1. deildinni í vetur, er hinsvegar komið uppí úrvalsdeildina þannig að körfuboltinn blómstrar á Suðurlandinu um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert