Grindvíkingar stungu af í lokin

Earnest Clinch Grindvíkingur sækir en Tómas Ingi Tómasson Þórsari verst.
Earnest Clinch Grindvíkingur sækir en Tómas Ingi Tómasson Þórsari verst. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Grindavík sigraði Þór úr Þorlákshöfn, 87:67, í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Grindavík í kvöld en þetta var þriðja viðureign liðanna. Staðan er nú 2:1, Grindvíkingum í hag og fjórði leikurinn verður í Þorlákshöfn á sunnudagskvöldið.

Ólafur Ólafsson átti stórleik með Grindvíkingum en hann skoraði 29 stig og tók 12 fráköst. Earnest Lewis Clinch var með 24 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Þór var Mike Cook með 15 stig, Baldur Ragnarsson 13 og Ragnar Nathanaelsson var með 12 stig og 15 fráköst.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

40. Leik lokið, 87:67. Það forskot sem Grindvíkingar byggðu sér uppí lok þriðja leikhluta létu þeir aldrei af hendi og voru skynsamir til loka leiks. Á meðan voru Þórsarar frekar óþreyjufullir í sóknarleik sínum og einstaklingsframtakið var í öndvegi. Þetta gerði varnarleik Grindvíkinga auðvelt fyrir og endaði leikurinn með verðskulduðum heimasigri.  Ólafur Ólafsson var maður þessa leiks. Hann tók af skarið þegar á þurfti og kveikti þann neista sem skilaði þessum sigri hjá Grindavík.  Grindavík leiðir nú einvígið 2:1.

40. Aðeins 55 sekúndur eftir og úrslitin eru ráðin. Staðan er orðin 83:64. Formsatriði að ljúka leik. Grindavík kemst í 2:1 í einvíginu.

38. Bilið breikkar, staðan 77:62. Tvær og hálf eftir.

37. Staðan er orðin 75:62 og sigur Grindvíkinga blasir við. Þrjár og hálf eftir.

36. Áfram ellefu stiga munur um miðjan fjórða leikhluta, nú 70:59.

33. Grindavík herðir tökin og nú munar 11 stigum, 66:55. Fer að verða erfitt fyrir Þórsara.

30. Þriðja leikhluta lokið og Grindavík er komin níu stigum yfir, 62:53. Þriðji leikhluti var leikinn af gríðarlegum hraða og þessi leikur er hrein unun að horfa á. Hér svigna borðin undan tilþrifakræsingum.  Ólafur Ólafsson er svo sannarlega að taka við því kefli sem bróðir hans Þorleifur skilur eftir sig. Kappinn hefur farið á kostum í leikhlutanum og sett niður fjóra þrista á skömmum tíma. Ólafur er með samtals 25 stig og hefur verið langbesti maður vallarins í kvöld.  Grindvíkingar virðast vera að ná smá tökum á þessum leik og hafa komið sér í 9 stiga forskot með flautu skoti sem Earnest Lewis Clinch setti niður hér.  Það skal þó engin afskrifa Þórsara en þeir líta samt út fyrir að vera orðnir ansi þreyttir.

30. Grindavík kemst í 59:50 en Þórsarar svara með þremur stigum.

29. Grindavík heldur forystunni, núna er 55:50 og rúm mínúta eftir af þriðja leikhluta.

28. Sveiflurnar halda áfram og nú er Grindavík komin í 52:48. Ólafur Ólafsson er áfram í miklum ham og er kominn með 20 stig og 10 fráköst.

23. Átta stiga rispa Þórsara. Mike Cook og Tómas Ingi Tómasson í aðalhlutverkum. Staðan 38:44.

21. Seinni hálfleikur hafinn og Ólafur Ólafsson skorar fyrstu körfuna, heldur áfram þar sem frá var horfið. Staðan 38:36.

20. Hálfleikur í Grindavík og staðan er hnífjöfn, 36:36. Tilþrif vetrarins komu strax í upphafi annars leikhluta þegar Ólafur Ólafsson spann sig í gegnum vörn Þórsara og tróð með tilþrifum, það sem kryddaði þetta enn frekar er að Ragnar Nathanaelsson og allir hans 218 cm urðu á milli. Þetta þótti ekki nóg því skömmu seinna átti Ólafur aðra eins troðslu (þó ekki yfir Ragnar) en þetta kveikti í húsinu og stuðningsmönnum þeirra gulu. En leikurinn gerist ekki mikið jafnari. Grindvíkingar tóku áhlaup og komust yfir loksins í leiknum í upphafi leikhlutans en gestirnir eru óþrjótandi og hafa með mikilli baráttu haldið sér í þessum leik.  Staðan eftir 20 mínútur er jöfn og algerlega ómögulegt að spá um úrslit þessa gríðarlega skemmtilega leiks.

17. Grindavík nær forystunni aftur, staðan er 30:28. Hörkuleikur og ekkert gefið eftir.

15. Þórsarar svara fyrir sig og eru yfir á ný, 24:26.

13. Grindavík tekur mikinn kipp og hefur náð forystunni í fyrsta sinn, 24:21. Ólafur Ólafsson kominn með 9 stig.

10. Fyrsta leikhluta lokið og Þór er yfir, staðan 12:16. Stemmningin hér er í raun öll Þórsara. Græni drekinn á stúkuna og þeir grænklæddu hafa byrjað þennan leik betur. Hugsanlega sakna Grindvíkingar eitthvað fyrirliða síns, Þorleifs Ólafssonar sem er meiddur.  En sem fyrr segir þá eru það Þórsarar sem og leiða með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta. En fjögur stig eru nú nánast ekki neitt í körfubolta og leikurinn þannig séð jafn.  Tómas Tómasson hefur farið fyrir Þórsurum hér í byrjun en hjá Grindavík er það Ólafur Ólafsson sem leiðir stigaskorun, báðir með 5 stig.

8. Þórsarar áfram með undirtökin, staðan 10:16. Tómas Ingi Tómasson með 5 stig og Ólafur Ólafsson 5 fyrir Grindavík.

6. Fyrsti leikhluti ríflega hálfnaður, hraður leikur en lítið skorað. Staðan núna er 5:10. Mick Cook með 4 stig fyrir Þór.

3. Það tók eina og hálfa mínútu að fá fyrstu stigin á töfluna en nú er staðan 3:7.

1. Leikurinn er hafinn.

19.12 - Leikurinn fer að hefjast. Jóhann, Ómar, Clinch, Ólafur og Sigurður byrja inná hjá Grindavík en þeir Baldur, Nemanja, Cook, Tómas og Ragnar hjá Þór.

18.15 - Þórsarar urðu fyrir áfalli í síðasta leik þegar hinn efnilegi Halldór Garðar Hermannsson meiddist á ökkla þannig að hann getur ekki spilað í kvöld. Sjá nánar. Þorleifur Ólafsson hjá Grindavík meiddist líka og spilar ekki meira á tímabilinu.

18.15 - Velkomin með mbl.is til Grindavíkur þar sem viðureign liðanna hefst eftir klukkutíma.

Liðin hafa unnið sinn heimaleikinn hvort og staðan er 1:1. Grindavík vann fyrst á heimavelli, 92:82, og Þór sigraði í Þorlákshöfn síðasta sunnudag, 98;89. Í vetur unnu þau hinsvegar hvort annað á útivelli. Þór vann 88:78 í Grindavík í desember en Grindavík vann hinsvegar 97:88 í Þorlákshöfn í næstsíðustu umferðinni fyrr í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert