Erum ekki með bakið upp við vegg

Pavel Ermolinskij og Guðmundur Jónsson berjast í kvöld.
Pavel Ermolinskij og Guðmundur Jónsson berjast í kvöld. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur var að vonum svekktur eftir naumt 91:88 tap fyrir KR þriðja leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deilar karla í körfubolta í Vesturbænum í kvöld. KR er 2:1 yfir í einvíginu eftir leikinn. 

Hann segir sitt lið hafa átt sigurinn jafn mikið skilið og KR. 

„Maður er auðvitað pínu svekktur. Leikurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var í kvöld, en hann datt þeirra megin. Mér fannst við eiga alveg jafn mikið skilið til að vinna og mér fannst við gera nóg til þess. Auðvitað voru einhverjir hlutir hér og þar sem var hægt að bæta, en það er skiljanlegt þegar spennustigið er svona hátt og það eru tvö frábær lið að berjast, það verða alltaf einhver mistök báðum megin."

„Ég var mjög ánægður með hvernig við komum til baka eftir fyrsta leikinn hér. Við vorum á allt öðrum stað í þessum leik en þá. Ég er ánægður með hvernig leikmennirnir mínir komu inn í þennan leik og hvernig þeir nálguðust hann. Ég er mjög stoltur og ánægður með það, þó það hafi ekki dugað til, þetta er eitthvað til að byggja á."

„Við vorum miklu betur stemmdir í þetta. Við fórum yfir nokkra hluti og köfuðum inn í hausinn á mönnum. Auðvitað sýndum við í síðasta leik að við getum unnið. Mjög margir voru búnir að dæma þetta 3:0 og að þetta yrði létt fyrir KR. Við höfum sýnt og sannað að við erum hér til að berjast fyrir okkar og við gefum ekki tommu eftir. Við mætum í næsta leik vígreifir, en gerum okkur grein fyrir að það verður hörkuleikur."

Amin Stevens skoraði 16 stig í leiknum og KR-ingar náðu að loka mikið á hann. Þess í stað komu aðrir leikmenn og tóku á skarið. 

„Ég var mjög ánægður með hvernig álagið dreifðist. Menn hafa verið að tala um að við þurfum að fá framlag frá fleirum en Amin, við vorum rétt búnir að vinna KR á útivelli án þess að Amin hafi verið með einhvern stjörnuleik, það ætti að gefa sjálfstraust inn í framhaldið. Amin er ekki búinn að segja sitt síðasta orð í þessu. KR-ingarnir voru að gera vel, þeir voru tveir og jafnvel þrír í kringum hann á öllum stundum. Þá opnast fyrir aðra á meðan og það er okkar að finna aðrar lausnir."

„Þeir komu lengra út í okkur og gáfu okkur minna svigrúm, það mátti vita að það myndi breytast og við þyrftum að hafa meira fyrir því. Við lentum 12 stigum undir en komum samt til baka og erum nánast búnir að taka þetta í lokin. Það sýnir karaktertinn í mínu liði, markmiðið er alltaf það sama, verða betri og betri eftir því sem líður á og mér finnst við vera á ágætis leið með þá."

Keflavík er komið í sumarfrí, takist þeim ekki að vinna næsta leik liðanna sem fram fer í Keflavík á þriðjudaginn kemur. 

„Við erum ekki með bakið upp við vegg, við ætlum að spila til að vinna og ef eitthvað annað gerist, þá gerist það. Ég hef engar áhyggjur á að það verði erfitt að ná mönnum af stað fyrir þann leik," sagði hann að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert