Mótherjar Íslands sluppu við gríska skrímslið og unnu

Willy Hernangómez átti góðan leik.
Willy Hernangómez átti góðan leik. Ljósmynd/FIBA

Spánn hafði betur gegn Grikklandi, 87:80, er liðin mættust í vináttuleik karla í körfubolta í Madríd í kvöld. Spánn er einn af mótherjum Íslands í undankeppni HM. Liðin mætast á Spáni 24. ágúst og á Íslandi í febrúar á næsta ári.

Liðin mættust einnig á þriðjudag og vann Grikkland þá 86:70-sigur. Gríska liðið lék hinsvegar án Giannis Antetokounmpo, skærustu stjörnu liðsins, í kvöld en hann fór einmitt á kostum á þriðjudagskvöld. Antetokounmpo er jafnan kallaður gríska skrímslið. 

Willy Hernangómez, leikmaður New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í Bandaríkjunum, átti afar góðan leik fyrir spænska liðið og skoraði 23 stig og tók tíu fráköst.

Úkraína, sem er í sama riðli, mætti Tyrklandi á útivelli í vináttuleik og vann tyrkneska liðið öruggan 96:70-sigur. Ísland leikur við Úkraínu á heimavelli 27. ágúst og á útivelli 14. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert