Haukar sömdu við Finna

Osku Heinonen er genginn til liðs við Hauka.
Osku Heinonen er genginn til liðs við Hauka. Ljósmynd/Haukar

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur komist að samkomulagi við finnska leikmanninn Osku Heinonen um að hann leiki með karlaliðinu á næsta tímabili.

Heinonen er 31 árs framherji sem er 194 sentimetrar að hæð og hefur leikið í heimalandinu allan sinn feril hingað til.

Lengst af hefur hann spilað með Tampereen Pyrinto í finnsku úrvalsdeildinni deild þar sem hann skoraði rúm 13 stig, tók tæp þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu að meðaltali á síðasta tímabili.

Þá var Heinonen með 40 prósent skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna, enda þykir hann lunkinn skotmaður.

„Heinonen var fyrirliði Tampere á síðustu leiktíð og því ljóst að Haukar eru ekki bara að fá til sín sterkan leikmann heldur einnig mikinn leiðtoga.

Þá spilaði hann fyrir yngri landslið Finnlands og á að baki 95 leiki fyrir U16, U18 og U20. Haukar bjóða Osku velkominn í Hafnarfjörðinn og hlakka til samstarfsins með honum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Hauka.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert