30:0 kafli dugði ekki til sigurs

Luka Doncic og félagar voru nálægt hinni fullkomnu endurkomu.
Luka Doncic og félagar voru nálægt hinni fullkomnu endurkomu. AFP/Richard Rodriguez

Þrátt fyrir 30:0 kafla Dallas Mavericks tókst liðinu ekki að vinna Oklahoma City Thunder í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. 

Í stöðunni 111:87 fyrir Oklahoma skoraði Dallas næstu þrjátíu stig og komst sex stigum yfir eða 117:111. Oklahoma var þó sterkari aðilinn á síðustu mínútunum og vann að lokum 126:120-sigur. 

Luka Doncic var magnaður í liði Dallas með 36 stig, 15 fráköst og 18 stoðsendingar en Jalen Williams skoraði mest í liði Oklahoma með 23 stig. 

Oklahoma er með 13 sigra og sex töp en Dallas er með 11 sigra og átta töp. 

Davis öflugur í sigri Lakers

Þá vann Los Angeles Lakers 107:97-sigur á Houston Rockets í nótt. 

Anthony Davis var atkvæðamestur í liði Lakers en hann skoraði 27 stig, tók 14 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Í liði Houston var Alperen Sengun atkvæðamestur með 21 stig, 13 fráköst og fimm stoðsendingar. 

Lakers er með 12 sigra og níu töp en Houston er með átta sigra og níu töp. 

Ekkert fær Minnesota stöðvað

Minnesota Timberwolves er í toppsæti Vesturdeildarinnar en liðið vann góðan útisigur á Charlotte Hornets, 123:117, í nótt. 

Karl-Anthony Towns skoraði 27 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar fyrir Minnesota sem er nú með 15 sigra og aðeins fjögur töp. Charlotte er með sex sigra og 12 töp. 

Önnur úrslit næturinnar:

Los Angeles Clippers - Golden State Warriors 113:112
Detroit Pistons - Cleveland Cavaliers 101:110
Brooklyn Nets - Orlando Magic 129:101
Milwaukee Bucks - Atlanta Hawks 132:121
Chicago Bulls - New Orleans Pelicans 124:118
Miami Heat - Indiana Pacers 129:144
Phoenix Suns - Memphis Grizzlies 116:109
Utah Jazz - Portland Trail Blazers 118:113
Sacramento Kings - Denver Nuggets 123:117

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert