Leggur skóna á hilluna

Danero Thomas í leik með Hamri í síðasta mánuði.
Danero Thomas í leik með Hamri í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Körfuboltamaðurinn Danero Thomas hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Á fyrri hluta þessa tímabils hefur hann leikið með nýliðum Hamars og lék sinn síðasta leik með liðinu, og á ferlinum, í gærkvöldi.

„Já, það er satt. Síðasti leikur minn með þeim var í gær,“ sagði Danero í stuttu samtali við mbl.is.

Hamar tapaði þá 81:106 á heimavelli fyrir Íslandsmeisturum Tindastóls, sem var ellefti tapleikur nýliðanna frá Hveragerði í jafnmörgum leikjum.

Hann hefur leikið hér á landi um langt árabil með fjölda liða og samdi við Hamar fyrir yfirstandandi tímabil en lætur nú gott heita.

Fékk tækifæri til þess að þjálfa

„Ég læt staðar numið héðan af. Ég fékk tækifæri til þess að þjálfa í 1. deild,“ bætti Danero við en kvaðst ekki mega segja frá því hvaða lið um ræðir að svo stöddu.

Hann er 37 ára gamall, fæddur í New Orleans í Bandaríkjunum og fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2018. Lék Danero sinn fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd í september sama ár.

Á ferli sínum á Íslandi lék hann alls þrisvar sinnum fyrir Hamar ásamt því að spila fyrir Breiðablik, ÍR, Tindastól, Þór frá Akureyri, Fjölni, Val og KR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert