Njarðvík aftur á sigurbraut

Njarðvíkingurinn Mario Matasovic sækir að körfu Stjörnunnar.
Njarðvíkingurinn Mario Matasovic sækir að körfu Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njarðvík hafði betur gegn Stjörnunni, 101:92, á útivelli í 12. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld. Var sigurinn kærkominn fyrir Njarðvík eftir tvo tapleiki í röð.

Njarðvík er nú með 16 stig, eins og Keflavík, Þór frá Þorlákshöfn og Álftanes, tveimur stigum á eftir toppliði Vals. Stjarnan og Tindastól koma þar á eftir með 14 stig.

Njarðvíkingar byrjuðu með látum í Garðabænum í kvöld því staðan var 31:16 eftir fyrsta leikhluta. Stjarnan minnkaði muninn í næstu tveimur leikhlutum og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 80:72.

Varð fjórði leikhlutinn æsispennandi og komst Stjarnan yfir í 85:84 þegar skammt var eftir. Njarðvíkingar reyndust hins vegar sterkari í blálokin og sigldu góðum sigri í höfn.

Þorvaldur Árnason skoraði 24 stig og tók sjö fráköst fyrir Njarðvík og Elias Pálsson bætti við 23 stigum.

Ægir Þór Steinarsson átti stórleik fyrir Stjörnuna, skoraði 28 stig og gaf tíu stoðsendingar. Júlíus Orri Ágústsson kom næstur með 19 stig og átta fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert