Þessi sigur gefur okkur mikið

Ægir Þór Steinarsson skýtur að körfu Ungverja í Höllinni í …
Ægir Þór Steinarsson skýtur að körfu Ungverja í Höllinni í kvöld. Kristinn Magnússon

„Þetta spilast eins og margir leikir hafa spilast fyrir okkur, við byrjum kannski flatir og spilum hægan sóknarleik en um leið og við náum að vera harðir varnarlega og náum að fara í hraðari sóknir þá breytist leikurinn algjörlega,“ sagði Ægir Steinarsson, landsliðsmaður í körfubolta, eftir 70:65 sigur á Ungverjalandi í B-riðli undankeppni EM 2025 í Laugardalshöll í kvöld.

„Þetta spilast mjög oft svona fyrir okkur og það er engin breyting á því í dag en ég hefði verið til í að vinna leikinn með meiri mun en þetta var virkilega flott frammistaða sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Ægir í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Ægir var með frábæra innkomu og breytti leiknum.

„Það hefur verið svona mitt hlutverk í liðinu. Við erum allir með okkar hlutverk og þjálfarinn kemur mjög skýrt með það hvaða markmið hver er með og ég reyni að koma með orku og hraðan varnarleik og sóknarleik. Ég held ég hafi náð að hjálpa ágætlega í dag.“

Næsti leikur liðsins er Tyrkland á útivelli á sunnudaginn.

„Mér líst vel á Tyrkland á útivelli og þessi sigur gefur okkur mikinn meðbyr og sjálfstraust. Við erum komnir á þann stað að við ætlum í þann leik til að vinna og við vitum alveg hvað verkefnið er krefjandi og hvað við þurfum að gera til þess að vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert