Ég var búinn að bíða eftir þessu mjög lengi

Martin Hermannsson spilaði sinn fyrsta landsleik eftir langa fjarveru í …
Martin Hermannsson spilaði sinn fyrsta landsleik eftir langa fjarveru í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var búinn að bíða eftir þessu mjög lengi, þetta eru skemmtilegustu leikir sem maður spilar,“ sagði Martin Hermannsson sem spilaði sinn fyrsta landsleik eftir langa fjarveru vegna meiðsla í 70:65 sigri Íslands á Ungverjalandi í undankeppni EM 2025 í Laugardalshöllinni í gærkvöld.

„Þetta er alveg geggjuð tilfinning. Ég viðurkenni það alveg ég var gjörsamlega búinn á því og byrjaður að krampa upp í þriðja leikhluta og lappirnar orðnar frekar súrar en þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir, að koma heim og spila fyrir landsliðið, hitta vini og fjölskyldu og það skemmir ekki fyrir að vinna leikinn,“ sagði Martin í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Leikurinn var upp og niður hjá íslenska liðinu en það lauk leiknum mjög vel.

„Mér fannst þetta spilast allt í lagi, þetta var ekkert eitthvað frábært en er hrikalega sáttur og það er mikill léttir að vinna þennan leik. Auðvitað hefði ég viljað vinna stærra og hitta úr fleiri þristum og allt þetta en við erum bara hrikalega ánægðir með sigurinn.“

Næsti leikur er á sunnudaginn gegn Tyrklandi á útivelli.

„Þessi sigur gefur okkur mikinn létti fyrst og fremst og sjálfstraust. Þetta sýnir okkur að við getum unnið þjóðir í þessum riðli. Auðvitað erum við að spila á móti öðruvísi andstæðingi á þeirra heimavelli á sunnudaginn þannig við förum inn í þann leik pressulausir og reynum að spila okkar leik og sjáum hvað það gefur okkur,“ sagði Martin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert