Komnir með þetta ef við vinnum Ungverja úti

Martin Hermannsson setti niður mikilvæg stig af vítalínunni undir lokin.
Martin Hermannsson setti niður mikilvæg stig af vítalínunni undir lokin. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mögulega fannst mér við geta keyrt hraðann aðeins meira upp,“ sagði Logi Gunnarsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í körfuknattleik, í samtali við mbl.is er hann gerði upp sterkan sigur karlaliðsins á Ungverjalandi í B-riðli undankeppni EM 2025 í gærkvöldi.

Ísland hafði betur, 70:65, eftir frábæran fjórða leikhluta.

„Auðvitað gefst ekkert alltaf færi til þess en á ákveðnum tímapunktum fannst mér að við hefðum átt að vera aðeins fyrr í því að keyra hraðann aðeins upp.

Við gerðum það á þessum kafla sem við komumst yfir, notuðum hraðann hjá okkar bestu leikmönnum til þess að keyra í bakið á þeim.

Þeir eru að koma á okkar heimavöll og eiga að finna fyrir því að þeir eru komnir til Íslands á móti liði sem vill hlaupa og skjóta,“ hélt Logi áfram.

Logi Gunnarsson lagði skóna á hilluna fyrir tæpu ári síðan.
Logi Gunnarsson lagði skóna á hilluna fyrir tæpu ári síðan. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Mikið styrkleikamerki

Leikurinn var hægari en íslenska liðið er þekkt fyrir að spila auk þess sem nýtingin úr þriggja stiga skotum hefur oft verið betri en 25 prósent nýtingin í gær.

„Þó við viljum vera skynsamir vantaði kannski aðeins að sleppa fram af sér beislinu. Kannski er það bara eðlilegt, fyrsti leikurinn og sá mikilvægasti. Það er kannski eðlilegt að menn voru ekki alveg reiðubúnir að sleppa af sér hömlunum í fyrri hálfleik.

Það er það eina sem ég sé að hafi mátt gerast fyrr. En svo var það samt svo mikið styrkleikamerki að vinna leik á heimavelli í leikstíl sem hentaði okkur ekkert voðalega vel. Leikurinn spilaðist öðruvísi en við héldum og vildum að mínu mati.

Auðvitað veit maður það ekki alveg en þetta er það sem ég les í þetta. Það er ákveðið styrkleikamerki að vinna leik þar sem við erum ekki að hitta alveg nógu vel fyrir utan þriggja stiga línuna.

Það þýðir að við erum komnir á góðan stað sem körfuboltalið. Líka það að vinna svona mikilvægan leik án þess að eiga neinn ofurleik,“ sagði hann.

Möguleikarnir góðir

Hver einasti sigur í B-riðlinum er mikilvægur þar sem þrjú af fjórum liðum fara beint á EM 2025.

Hvernig metur Logi möguleika Íslands á að komast á sitt þriðja Evrópumót?

„Ég sé þá bara sem mjög góða. Auðvitað verður brekka að fara á útivellina á móti Tyrkjum og Ítölum. Næstu leikir verða erfiðir en auðvitað er alltaf möguleiki að stela einum af þessum leikjum.

Maður veit ekki nákvæmlega hvernig leikmannahóparnir eru hverju sinni af því að það eru alltaf einhverjir leikmenn sem fá ekki að fara frá sínum félagsliðum.

Það verður alltaf brekka á móti Ítalíu og Tyrklandi en samt alltaf möguleiki og sérstaklega hérna heima. Ef við höldum okkar striki og vinnum Ungverja líka úti þá held ég að við séum komnir með þetta,“ sagði hann.

Öll stig skipta máli

„Auðvitað getur ýmislegt gerst og Ungverjarnir gætu stolið einhverjum sigri annars staðar en ég held að innbyrðis skorið skipti öllu máli, að við vinnum þá úti en töpum ekki með fimm stigum eða meira.

Síðustu sóknirnar í gær skiptu gríðarlegu máli, að Martin [Hermannsson] skyldi hitta úr vítunum og að við fengum auka stig úr því. Öll stig skipta máli og ég held að við eigum góða möguleika,“ sagði Logi að lokum í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Loga birtist á íþróttasíðum Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert