Þriggja leikja bann fyrir hnefahögg

Isaiah Stewart í leik með Detroit Pistons.
Isaiah Stewart í leik með Detroit Pistons. AFP/Mike Mulholland

NBA-deildin í körfuknattleik hefur úrskurðað Isaiah Stewart, leikmann Detroit Pistons, í þriggja leikja bann fyrir að kýla andstæðing sinn Drew Eubanks, leikmann Phoenix Suns, í andlitið fyrir leik liðanna í deildinni í síðustu viku.

Stewart rak Eubanks hnefahögg fyrir leikinn og var í kjölfarið handtekinn en sleppt úr haldi lögreglu síðar sama kvöld.

Samkvæmt ESPN sagði Stewart að þeim hefði lent saman með þeim afleiðingum að hann kýldi Eubanks, sem spilaði leikinn nokkrum klukkustundum síðar.

Stewart verður ekki ákærður fyrir hnefahöggið og er málinu því lokið þegar hann hefur tekið út leikbann sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert