Hamar/Þór upp í úrvalsdeild

Leikmenn Hamars/Þórs fagna sigrinum á Ármanni og úrvalsdeildarsætinu í Laugardalshöllinni …
Leikmenn Hamars/Þórs fagna sigrinum á Ármanni og úrvalsdeildarsætinu í Laugardalshöllinni í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tryggði sér í kvöld sigur í 1. deild kvenna í körfuknattleik og um leið sæti í úrvalsdeild með því að leggja Ármann að velli, 82:72, í lokaumferðinni í Laugardalshöll.

Hamar/Þór fer beint upp í úrvalsdeild á meðan Aþena, KR og Tindastóll fara í umspil ásamt næstneðsta liði úrvalsdeildarinnar, Snæfelli, um eitt laust sæti í úrvalsdeild.

Í Laugardalshöllinni byrjaði Hamar/Þór betur og var með níu stiga forystu, 53:44, í hálfleik.

Ármann mætti til leiks af gífurlegum krafti í síðari hálfleik og var búinn að minnka muninn niður í aðeins eitt stig 64:63, að loknum þriðja leikhluta.

Í fjórða og síðasta leikhluta var allt í járnum lengst af en með taugarnar þandar tókst gestunum af Suðurlandi að sigla fram úr í lokin og landa sterkum tíu stiga sigri.

Ótrúleg endurkoma Aþenu

Aþena og KR áttust við í toppslag þar sem heimakonur höfðu betur, 61:57, og tryggðu sér þannig annað sæti deildarinnar.

Aþena vann sér inn 32 stig í 21 leik líkt og topplið Hamars/Þórs en síðarnefnda liðið var með betri árangur í innbyrðis viðureignum þeirra.

KR byrjaði leikinn töluvert betur í Austurbergi í Breiðholti og komst í 0:9 og 2:12. Eftir það tók Aþena aðeins við sér og staðan að loknum fyrsta leikhluta 11:17, KR í vil.

Í öðrum leikhluta voru Vesturbæingar áfram með yfirhöndina en eftir að hafa byrjað leikhlutann af krafti klóraði Aþena í bakkann og munaði sjö stigum á liðunum í hálfleik, þegar staðan var 22:29.

Aþena gafst ekki upp og var búin að minnka muninn niður í aðeins fjögur stig að þriðja leikhluta loknum, 41:45.

Snemma í fjórða leikhluta var Aþena búin að snúa taflinu við og staðan orðin 51:47.

Fór svo að Aþena vann sterkan fjögurra stiga endurkomusigur en með sigri hefði KR tryggt sér efsta sætið.

Úrslit kvöldsins:

Aþena – KR 61:57

Ármann – Hamar/Þór 72:82

Tindastóll – Keflavík b 81:43

Stjarnan b – ÍR 83:91

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert