„Ekki alveg nógu flinkir og góðir

Valsmaðurinn Taiwo Badmus fer fram hjá Hattarmanninum Gustav Suhr-Jessen á …
Valsmaðurinn Taiwo Badmus fer fram hjá Hattarmanninum Gustav Suhr-Jessen á Hlíðarenda í kvöld. Árni Sæberg

Viðar Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var svekktur eftir tap liðsins gegn Val á Hlíðarenda í kvöld í fyrsta leiknum í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Hlíðarenda.

Aðspurður um hans skoðun á frammistöðu Hattar gegn deildarmeisturum Vals í kvöld sagði Viðar Hafsteinsson í samtali við mbl.is:

„Heilt yfir kannski ekki alveg nógu góð en það eru góðir kaflar og líka móment þar sem við missum fókusinn og erum ekki alveg nógu flinkir og góðir og það eru bara hlutir sem við þurfum að laga milli leikja.“

Höttur fékk margar villur á sig á tímabili í 2. leikhluta og Viðari fannst sínir menn ekki bregðast nægilega vel við mótlæti í kvöld.

"Ég var kannski óánægður með sjálfa okkur að missa hausinn í svona mómentum, ég veit alveg að það er ekki borin mikil virðing fyrir Hetti á Egilsstöðum og við erum að spila á móti landsliðsköllum en við verðum bara að spila í gegnum þetta.“

„Auðvitað brutum við klaufalega af okkur á löngum köflum en við getum ekki alltaf verið furðu lostnir þegar er dæmd villa og missa hausinn eins og gerðist svolítið hjá okkur í kvöld. Við verðum að skerpa á okkur á svoleiðis köflum. Við koðnum aðeins í síðari hálfleik þegar þeir stíga á gasið en ég hef engar áhyggjur af að við náum ekki að berja okkur saman og fylla í þessar eyður í næsta leik,“ sagði Viðar.

Egilsstaðabúar studdu liðið úr stúkunni í kvöld og ætla má að stuðningurinn verði enn betri þegar liðin mætast á heimavelli Hattar á sunnudaginn.

„Ég ætla rétt að vona að við fyllum kofann á sunnudaginn, það var ekki mjög mikið af fólki hérna en enn færri frá Val og ég ætla að vona að fólk mæti á þessa úrslitakeppni. Þetta var ekkert svakalegt," sagði Viðar í leikslok.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert