Háspenna þegar Þór tók forystuna

Stórleikur Darius Banks dugði ekki til
Stórleikur Darius Banks dugði ekki til Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór sigraði Skallagrím í úrslitakeppni 1. deildar í körfubolta karla í Íþróttahöllinni á Akureyri. Leikurinn var jafn og spennandi en endaði með eins stigs sigri heimamanna 89:88

Þriðji leikur liðanna var jafn líkt og hinir tveir en í fyrsta skipti í einvíginu vann heimaliðið. Þórsarar leiddu 44:41 í hálfleik og 66:60 eftir þrjá leikhluta. Baldur Jóhannesson varði skot Marinós Pálmasonar þegar ein sekúnda var til leiksloka og tryggði sínum mönnum sigurinn.

Darius Banks átti stórleik fyrir gestina úr Borgarnesi og skoraði 37 stig ásamt því að taka 17 fráköst. Nicolas Elame var með 24 stig.
Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson var stigahæstur Þórsara með 24 stig, Jason Gigliotti var öflugur með 20 stig og 20 fráköst, þar af 8 sóknarfráköst í annars jöfnu liði heimamanna.

Liðin mætast næst í Borgarnesi á miðvikudaginn og þar geta Þórsarar tryggt sér sæti í undanúrslitum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert