Erum ekki á leiðinni í sumarfrí

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Vals.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Vals í körfuknattleik kvenna var allt annað en sáttur með leik liðsins sem tapaði stórt fyrir Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld. 

Hvað fór úrskeiðis í leik Vals í kvöld?

„Þetta var mjög svipað og í fyrsta leiknum gegn þeim. Við vorum alltof langt frá þeim, leyfum þeim að valta yfir okkur og erum bara alltof linar í okkar leik,“ sagði Hjalti Þór í samtali við mbl.is.

Nú er Valur með bakið upp við vegg og tap í næsta leik þýðir sumarfrí. Hvað þarf að gerast til að ná sigri í næsta leik?

„Við þurfum að standa betur í lappirnar og berja miklu meira frá okkur. Í fyrri hálfleik erum við að tapa 14 boltum og þær fá 19 stig út frá því og það er munurinn í hálfleik.

Síðan vorum við að leyfa þeim alltof auðveld skot fyrir utan þriggja stiga línuna sem gaf þeim fullt af stigum,“ útskýrði hann.

Var það meðvituð ákvörðun að hleypa þeim upp í svona auðveld skot fyrir utan þriggja stiga línuna?

„Það var meðvitað að leyfa vissum leikmönnum að skjóta þarna fyrir utan en það komust aðrir leikmenn upp í skot sem áttu ekki að fá svona opin færi,“ sagði Hjalti Þór.

Þið vinnið á Hlíðarenda með þremur stigum en tapið hér í kvöld með 33 stigum. Í hverju felst þessi rosalega sveifla í ykkar leik?

„Aðallega bara munurinn á baráttu og að standa í lappirnar. Við vorum of linar hér í kvöld og það verður ekki í boði í næsta leik því við erum ekki á leiðinni í sumarfrí, það er alveg á hreinu,“ sagði Hjalti Þór ákveðinn að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert