Vil sjá fullt Valsheimili af Njarðvíkingum

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur.
Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njarðvík er komin með annan fótinn í undanúrslitaeinvígi gegn annað hvort Grindavík eða Stjörnunni í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir 33 stiga sigur á Val í kvöld. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var ánægður með leik Njarðvíkurkvenna.

Spurður út í þær sveiflur sem eru í þessum þremur leikjum liðanna í 8-liða úrslitum sagði Rúnar Ingi þetta:

„Körfubolti getur verið mjög sveiflukenndur í svona úrslitakeppnum. Staðreyndin er sú að þetta snýst bara um hvaða orkustig við mætum með inn í svona leiki. Eftir að hafa unnið þær stórt hér þá mætum við á Hlíðarenda, ekki með vanmat á Val heldur vanmat á baráttuna í þeim.

Valur byrjaði síðasta leik rosalega vel og það byggði upp sjálfstraust í þeim og við létum það hafa áhrif á okkur. Það hefur verið veikleiki hjá okkur í vetur að þegar við finnum að hitt liðið sé að eflast þá förum við í ákveðið panikk.“

Þannig að uppleggið fyrir þennan leik var að ná upp góðum baráttuanda?

„Já, og að reyna komast nær 40 mínútum í kvöld án þess að það væri mikil breyting á því hvað við værum að gera bæði varnar- og sóknarlega. Þannig að við ætluðum að halda dampi alveg óháð því hver staðan væri í leiknum.,“ sagði hann.

Ef við kryfjum það þá kemur upp kafli í fjórða leikhluta þar sem Njarðvík lendir í vandræðum með að setja niður körfur í talsvert langan tíma. Er það þá áhyggjuefni?

„Ég myndi ekki segja að það væri áhyggjuefni en við náðum alveg 28 mínútum þar sem við spilum heildstætt okkar leik eins og við lögðum alveg upp með.

Við sýnum á löngum köflum, sérstaklega í fyrsta leiknum að við náum að stjórna hraðanum í sóknunum og notfæra okkur okkar styrkleika eins og þegar Valur gefur okkur öll þessi færi fyrir utan þriggja stiga línuna að þá notfærum við okkur það,“ sagði Rúnar Ingi.

Hvað þarf að breytast frá öðrum leiknum á Hlíðarenda svo Njarðvík geti klárað þetta einvígi á Hlíðarenda í leik fjögur?

„Ákefð númer eitt, tvö og þrjú. Við þurfum að spila okkar leik þar sem við stjórnum hraðanum. Þær munu mæta brjálaðar á föstudag því þær eru komnar upp við vegg. Nú fókusum við á að mæta dýrvitlausar til leiks,“ sagði hann.

Aggi Poe kvartaði undan mætingu á Hlíðarenda. Hvað hefur þú að segja um það?

„Við tölum alltaf um að vera körfuboltabær. Njarðvík urðu Íslandsmeistarar árið 2022 og við erum með frábæra leikmenn sem eiga skilið að það mæti miklu fleiri á útileikina, sérstaklega í úrslitakeppninni.

Ég vil sjá fullt Valsheimili af Njarðvíkingum og síðan vill ég sjá troðfulla Ljónagryfju af okkar fólki hér á næsta heimaleik,“ sagði Rúnar Ingi að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert