Fáum miklu meiri mótspyrnu í næstu umferð

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur. Haraldur Jónasson/Hari

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur í körfubolta kvenna var ánægður með að vinna Fjölni í þremur leikjum nokkuð auðveldlega. Keflavík er því komið í undanúrslit.

Spurður að því hvort þetta hafi ekki verið helst til of þægilegt fyrir Keflavík sagði Sverrir Þór:

„Það er eðlilegt að þetta hafi verið þægilegt fyrir okkur í ljósi þess að við erum í fyrsta sæti en þær í því áttunda. Við tókum þessu samt sem áður mjög alvarlega og unnum mjög sannfærandi í öllum leikjunum.“

Keflavík mætir annað hvort Haukum eða Stjörnunni í næstu umferð. Hvernig sérðu þá seríu fyrir þér?

„Næsta umferð verður miklu erfiðari og nú bíðum við og sjáum hvort það verði Haukar eða Stjarnan sem við mætum. Það verður erfitt hvort liðið sem það verður. Það verður bara stál í stál,“ sagði hann.

Er eitthvað í þessari seríu sem hefði mátt betur fara hjá liði Keflavíkur?

„Já, það eru alltaf ýmsir hlutir sem við klikkum á sem eru samt ekki að skemma fyrir okkur í þessari seríu því munurinn var það mikill. Við ræðum það núna á næstu æfingum og förum yfir það,“ sagði Sverrir Þór.

Eru allir leikmenn heilir og tilbúnir í undanúrslitin?

„Já, af þeim sem hafa verið að spila mest þá eru allar heilar og tilbúnar í næstu leiki,“ sagði hann.

Það hlýtur að vera gott fyrir Keflavík að fá góðar pásur á meðan næsti mótherji er að berjast um að komast áfram?

„Ég spái lítið í því. Stundum er gott að spila fleiri leiki og síðan er líka stundum gott að fá hvíldina. Það kemur samt ekkert í ljós fyrr en þú ert kominn inn í næstu seríu hvort henti betur.

 Það er samt alveg ljóst að við fáum miklu meiri mótspyrnu í næstu umferð, hvort sem það verða Haukar eða Stjarnan,“ sagði Sverrir Þór.

Hefur þú áhyggjur af því að þínir leikmenn fari að vanmeta andstæðingana í ljósi þess að þið hafið unnið öll lið í vetur?

„Nei ég hef svo sem ekki áhyggjur af því. Það þarf alltaf að skerpa á öllu og þú vinnur ekkert á einhverju sem þú hefur gert áður. Það er bara nýr leikur og þær þurfa að vera fókuseraðar hverja einustu sekúndu sem þær eru inni á vellinum.

Við þurfum að leggja okkur fram á næstu æfingum og leikjum. Þannig verður þetta bara þangað til þetta mót er búið,“ sagði Sverrir Þór að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert