Þessi sería er ekki búin

Benedikt Guðmundsson og hans menn í Njarðvík eru komnir í …
Benedikt Guðmundsson og hans menn í Njarðvík eru komnir í erfiða stöðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur var allt annað en sáttur við sitt lið sem er komið undir í einvíginu gegn Þór Þorlákshöfn eftir tap á heimavelli í kvöld þegar liðin mættust í þriðja sinn í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld.

Þór vann eftir framlengingu, 110:107, og er með forystu í einvíginu, 2:1, fyrir fjórða leikinn sem fer fram í Þorlákshöfn.

„Þetta er ofboðslega sárt tap. Að tapa í framlengingu með svona litlum mun, það svíður," sagði Benedikt við mbl.is eftir leikinn.

Ef við förum yfir leikinn, hvað fór úrskeiðis í leik Njarðvíkur?

"Við fáum endalaust af sénsum til að klára þennan leik. Hvort sem það voru skot nálægt körfunni eða fyrir utan sem voru ekki að detta fyrir okkur. Síðan erum við að slefa í 50% vítanýtingu sem er alls ekki nógu gott. Að klikka á ca. 10 vítaskotum gengur ekki. Á sama tíma erum við að hitta tveimur af 14 þriggja stiga skotum í síðari hálfleik"

Þetta hljómar svolítið eins og lið Njarðvíkur hafi farið á taugum í dag.

„Ég veit það ekki. Það gæti verið. Við þurfum bara að skoða þetta núna. Á meðan við vorum að klikka voru þeir að setja niður stórar körfur hvað eftir annað.

Ég er mest svekktur með að við gröfum okkur holu í byrjun leiks, alveg eins og í síðasta leik. Síðan vinnum við okkur til baka, náum forystu og töpum henni síðan aftur í byrjun síðari hálfleiks. Fyrir mér er það alls ekki nógu gott. Byrjunarliðið okkar er að byrja illa í báðum hálfleikunum í tveimur leikjum í röð og við þurfum að leysa það."

Njarðvíkurliðið er komið upp við vegg og ekkert nema sigur heldur ykkur inni í þessari seríu. Hvernig verður að mæta í Þorlákshöfn á mánudag í þessari stöðu?

„Þessi sería er ekki búin, ég get lofað þér því. Við ætlum að mæta á mánudaginn og sækja sigur og koma svo aftur hingað á fimmtudaginn í næstu viku," sagði Benedikt í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert