Vorkennir dómurum við svona aðstæður

Viðar Örn Hafsteinsson á hliðarlínunni í kvöld.
Viðar Örn Hafsteinsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var að vonum svekktur eftir tap sinna manna fyrir Val, 94:74, í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik í Valsheimilinu í kvöld.

Valur er þar með kominn með forystuna, 2:1, en liðin mætast aftur á Egilsstöðum á mánudaginn kemur. Með sigri þar kemst Valur áfram en þrjá sigra þarf til þess.

„Ég er svekktur að við náðum ekki að brjóta þessi tíu stig niður síðustu fimm mínúturnar, þar gáfum við þetta frá okkur. 

Valsmenn hertu tökin varnarlega og við áttum erfitt með að finna leiðir til að skora. Síðan misstum við einbeitinguna síðustu fimm mínúturnar þar sem þetta rennur frá okkur og þeir gera vel,“ sagði Viðar í samtali við mbl.is. 

Bullandi hliðhollur mínu liði

Liðin rifust mikið og voru menn mjög ósáttir við hvor annan. Hattarmaðurinn Dav­id Guar­dia var rek­inn út úr húsi á 14. mín­útu eft­ir að hafa sparkað í Vals­ar­ann Frank Aron Booker. Viðar segist vorkenna dómurum fyrir að hafa ekki myndbandsaðstöðu til að fara yfir atvikið. 

„Menn eru að berjast og reyna allt til að vinna. Ég er bullandi hliðhollur mínu liði og sé þetta með öðru auganu og þeir með sínu. Það er partur af leiknum. 

Ég sé þetta ekki nógu vel. Dómararnir voru fullvissir um að hann hafi sparkað frá sér og þá er þetta réttur dómur. Það er bara lélegt að það sé ekki myndbandsaðstaða hérna til að þeir geti skoðað þetta aftur. 

Það er skítlélegt og ég vorkenni dómurum að dæma í svona aðstæðum eins og eru hér í Valsheimilinu.“

Hvernig komið þið til baka fyrir austan?

„Við verðum að finna leiðir og lagfæra það sem fór verr í okkar leik í dag. Við ætlum okkur að koma aftur hingað eftir viku,“ bætti Viðar Örn við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert